Góðir Páskar

Maður er aldeilis búinn að hafa það huggulegt í fríinu. Ég hef reyndar ekkert sleppt mér í mat og drykk, nema hvað ég fórnaði mér í páskaeggið sem Mummi fékk frá vinnunni og óverdósaði hressilega á súkkulaði. Það er bara jákvætt, ég hef þá ekki lyst á því í nokkra daga á eftir.

Annars eru engar fréttir af kílóum. Tíminn féll niður í gær, spurning hvort maður reyni að mæta extra snemma á morgun til að komast að í vigtun þá. Það er margföld mæling því það eru líka sentimetrar. Einhverjir hafa fokið, það er ljóst, að minnsta kosti get ég komið mér í gamlar flauelsbuxur og sest án mikilla átaka. En kílóin hafa ekki fokið í vikunni.

Strumpan öll að koma til í labbinu. Var mjög áhugasöm um að ganga fram og tilbaka í dag, ég tók hana meira að segja upp á vídeó. Við keyptum skó á hana í dag, svona ægifína rauða, sem eru opnir á ristinni, nema með þverbandi. Mjög sætir. Mátuðum líka sandala, sú var áhugasöm um það. Góndi yfir sig hrifin í spegilinn í skóbúðinni. En það er erfitt að ganga í skóm, þetta er svona álíka eins og að setja dýr í sokka.

Í dag fékk ég loks fína Grand Prix diskinn minn og er búin að hlusta nokkrum sinnum á hann Tómas Þórðarson í gleði minni. Þetta er með síðustu skipum til að geta glatt nemendurna. Í sumum hópum á ég bara örfáa tíma eftir, sem fara í alls kyns próf og enginn tími fyrir glens.