Æðisleg tónlist!

Loksins, loksins. Ég var í ræktinni í morgun, við vorum settar í spinning og það var annar kennari en venjulega. Sú venjulega er Abba, konan hans Óla Hitler og tónlistarsmekkur hennar á ekki allskostar við mig. Hún er nefnilega dáldið mikið fyrir kántrý (er nota bene Íslandsmeistari í línudansi), spilar svo sem þess á milli ágæta tónlist, en ævinlega í einhverri voðalegri útgáfu. Nema hvað, í morgun var bara byrjað á A Kind of Magic. Það þekkja allir sem hafa farið í spinning að það er allt annað líf þegar tónlistin er góð. Þá getur maður sungið með (ekkert voðalega hátt) og verið í fíling. Svo spilaði kennarinn líka Prince og Freddie (Living on my own). Sem sagt, djollý tími.

Ég fór líka í jóga í gær eftir langt hlé. Það var verulega indælt ekki síst vegna þess að við vorum bara átta og Helga gat þess vegna labbað á milli og leiðbeint okkur. Það er nefnilega tilfellið að þó maður sé gríðarlega góður (eins og ég er) þá getur maður alltaf betrumbætt stöðurnar. Hún hefur ekkert getað sinnt þessu í vetur. Svo fann ég bara gríðarlegan mun hvað ég var öll lipurri.