Jamm, þessir uppsöfnuðu vikupóstar eru alveg voðalegir. Þetta fer að verða jafn lélegur brandari eins og sá annar-vissi í fjarkennslunni hjá mér „já nú skal ég sko fara yfir ritgerðirnar strax“.
Það sem stendur næst mér í tíma er Eurovisjon – missti nefnilega af herlegheitunum á laugardaginn var en hafði rænu á að taka þáttinn upp í endursýningu, því ég var alveg úti í öllum umræðum. Nema hvað, ég fékk nánast tár í augun við að hlusta á þá frændur mína og vini alla, þetta var algjör Kontrapunkts-nostalgía (eins og hjá Ernu). Finnlands-sænskan svo yndisleg að mér varð hugsað til hans Matta míns hér um árið. Æh, Sixten og norska tröllið og Mogens (hét hann ekki Mogens annars?), að maður tali nú ekki um þá vini mína Ríkharð og Valdimar.
En Eurovisjon, sem sagt. Fá lög sem náðu að heilla mig eitthvað sérstaklega, þeim mun fleiri sem voru voðaleg. Ég vona að það sé á engan hallað að nefna Sviss hörmung kvöldsins og Grikkland einum of mikið dilliboss eitthvað. Hvað var sú sænska Lotta að krema yfir honum?
Þátturinn hins vegar algjör snilld. Kemur þá að krísu mikilli. Aldrei þessu vant er annað kvöld (eða í kvöld, miðað við dagsetningu pósts) svo ógurlegt sjónvarpskvöld að ég veit ekki í hvorn fótinn ég á að stíga. Þetta er nefnilega of mikið fyrir videótækið og mig. Þannig er auðvitað Popppunktur sjálfskipað efsta sæti fyrir laugardagskvöld. Á morgun er hins vegar líka þessi góði þáttur (og ég hef grun um að danska framlagið verði með á morgun) og hins vegar sú alræmda mynd Master of Disguise – ég held enn að ég gæti verið þessi eina manneskja í heiminum sem finnst hún fyndin. Að minnsta kosti verð ég að gefa Dana Carvey séns. Hvort ég neyðist til að æða um á milli stöðva eða leyta á náðir annarra vídeótækja, það er spurningin.
Af húsnæðiskaupum er það að frétta að við erum ekki að fara að kaupa hús í bili. Okkar mjög svo digru sjóðir duga ekki til að kaupa Stekkjargerði (nema kannski númer 4), svo næsta mál á dagskrá er að bíða í rólegheitum eftir hvort það komi ekki einhvern tímann einhver til að skoða íbúðina okkar (og jafnvel kaupa).
Sem sagt, góð íbúð í Huldugili til sölu – fæst á sanngjörnu verði.
Og svo er það náttúrulega mál málanna í dag. Kennslu lokið. Jibbý jei.