Ég get varla á mér setið að blogga um niðurstöður þyngdarmælinganna allra, þó svo árangurinn sé ekkert til að hrópa húrra yfir. En þannig var að ég fór í upphafsmælingu á fimmtudaginn í síðustu viku og hafði þá, mér til mikillar gleði, tapað einu kílói yfir sumarið. Geri aðrir betur á fjórum mánuðum 🙂 Önnur mæling fór svo fram í gær, og það var sem mig grunaði, Breakfast Club og önnur ógæfa í vikunni vóg ansi þungt og vigtin stóð í stað. Eina huggun mín var sú að fitumælingin sýndi að það höfðu í reynd farið 200 grömm af fitu, eða 40% af venjulegu smjörlíkisstykki (cirka 13 lítil smjörstykki). Ég verð að taka mig aðeins á í þessari viku sem framundan er (segir sú sem er nú þegar búin að kaupa fullt af nammi fyrir nammidaginn…)
Nú er að hefjast dönsk kvikmyndahátíð í Reykjavík – bölv bölv – sem lýkur að sjálfsögðu áður en ég kem í borgina um miðjan mánuðinn. Það er við þessi örfáu tækifæri sem maður spælist yfir því að vera í einangrun hér f. norðan. Að vísu á ég tvær af sýningarmyndunum á DVD, eins og venjulega eru þeir ekkert allt of mikið öpptúdeit. Ég treysti á dönskukvikmyndafulltrúa minn Miss Sacher að fara og sjá einhverja myndina fyrir mína hönd! (sem btw hefur alveg klikkað á að senda mér ferðasöguna frá DK). Ég hugga mig við að RÚV er að byrja að sýna danskan þátt á sunnudagskvöld. Öll símtöl vinsamlegast afþökkuð á þeim tíma!