Ekki þó þessir í Nettó, heldur ætla ég að láta verða af því að gefa upp nöfn af danska hjásvæfulistanum mínum, þessum sem ég má ekki vera með í gangi (af því að það er jú bara leyfilegt að hafa fimm á hjásvæfulista – ég fékk held ég sérlega undantekningu til að gera konulistann minn og held að hann sé í fullu gildi). Eins og fróðir menn og konur muna, eru reyndar tveir Danir á hinum eina sanna hjásvæfulista, annars vegar Friðrik minn prins og hins vegar Viggo minn Aragorn Mortensen. Þannig að ef ég fengi í raun að hafa einn lista bara með dönskum mönnum, þá væru þeir á honum.
Ég nefndi hér í umfjöllun um Krøniken, að hann Palli sæti væri á listanum. Hann gengur annars undir nafninu Anders W. Berthelsen og er 35 ára. Ég hef verið skotin í honum síðan hann lék í Mifunes sidste sang og átti þar stórleik.
Síðan er það að sjálfsögðu Peter Mygind (öðru nafni Nikolaj). Hann er fæddur 63 og deilir afmælisdegi með Önnu systur. Einhverjum fannst hann alltof mikill aumingi hann Nikolaj en ég leit hann fyrst og fremst girndarauga. Hann er víst óskaplegur Íslandsvinur, enn ein ástæða fyrir að fá ekki að hafa hann á virkum lista!!
Að lokum er það kandídat sem ég er sérlega stolt að kynna. Hann heitir Mads Mikkelsen, er að verða 39 ára og þekkist helst fyrir hlutverk sitt sem Fischer í Rejseholdet. Ástæðan fyrir því að ég er sérlega stolt af honum á listanum, er sú, að mér finnst hann í raun ekkert sætur en hann hefur eitthvað við sig. Það er ótrúlega kúl að vera ljótur og sexí. Það er von fyrir alla, after all!
Mér finnst þessi listi líka merkilegur fyrir þær sakir að danskir karlmenn eru yfirleitt ekki sérstaklega aðlaðandi. En skál í Jolly Cola (sem ég er einmitt að súpa á) fyrir þessum góðu og efnilegu sem þó finnast.