Sukkviðbjóður

Ég átti alveg eftir að skrifta eftir síðustu helgi. Einhvern veginn sat svo fast í mér þegar ég var að íhuga að blogga að ég hefði ekkert gert en það er sem sagt ekki rétt. Okkur Mumma var boðið í mat til Hönnu og Ármanns á laugardagskvöld og slógum öllu upp í allsherjar kæruleysi og fengum tengdamömmu til að passa fyrir okkur. Fórum í æðislegan mat, lúðu og skötusel í aðalrétt og dúndur súkkulaðiköku í eftirrétt (Ármann er, held ég, konungur eftirréttanna). Með þessu drukkum við alls kyns hvítvín, mest eitthvað pallavín en það getur verið allt í lagi að drekka það. Svo smakkaði ég viský sem var allt í lagi – það telst til tíðinda á mínu heimili þannig að ég ákvað að smakka okkar viský þegar heim var komið. En það var hins vegar, eins og mig minnti, alveg hræðilega vont. Ég kom loks fyrir mig eftirbragðinu, það var nákvæmlega eins og ég ímynda mér eftirbragðið eftir að sleikja öskubakka. Ég mæli með að menn haldi sig langt frá Ballantine’s.

Á sunnudaginn var svo dönskukennara/gestakennara kaffi hjá Nönnu. Það var líka ljómandi skemmtilegt og gott með kaffinu. Við ætlum að endurtaka leikinn og hittast yfir mat á laugardagskvöldið. Ég fór svo með kökuafgang til Kristínar á sunnudagskvöld, nú erum við búnar að gefast upp á köllunum okkar og erum komnar í bandalag að horfa á Krøniken saman.

Í kvöld er svo fyrsti hittingur hjá Krimmaklúbbnum. Mér líður eins og slæmum nemanda því ég er ekki búin að klára bókina sem við erum með. Rauði úlfurinn e. Lisu Marklund. Ekki það að hún er ágæt, við fengum bara full stuttan fyrirvara. Það er svona, þegar maður getur ekki lagst upp í rúm og lesið þegar manni dettur í hug. Ég er líka búin að vera óvenju þreytt á kvöldin og sofna iðulega fyrir framan sjónvarpið.

Að lokum, ég auglýsi eftir djammfélaga á föstudagskvöld. Ég er að fara á Nýdönsk og langar að fara eitthvað út á eftir. Anyone?