Stór dagur í gær. Það var ákveðið að láta Strumpuna prófa að sofa í sínu herbergi. Ekki uppi í prinsessurúminu, það er ekki óhætt enn, þess vegna settum við dýnuna úr rúminu hennar á gólfið, undir rúmið og gerðum ógurlegt hreiður þar. Hún var ekkert nema jákvæðnin fyrirfram, lítið mál að „sofa hebbebbi“, en svo vandaðist málið þegar alvaran varð ljós. Þá varð hún ósamvinnuþýðari og grenjaði úr sér lungun. En eftir tvær tilraunir þar sem henni var boðið að grenja í lokuðu herbergi eða að vera þæg í opnu herbergi, ákvað hún að fara málamiðlunarleiðina og var þæg, sofnaði meira að segja tiltölulega fljótt og svaf í alla nótt (með smá rumski um ellefu, en það var nóg að leggjast aðeins hjá henni). Svo var hún montin eftir því í morgun, en spurning hvort hún var að reyna að semja þegar hún kom inn í okkar herbergi, benti á rúmið sitt og sagði „sofa hetta“. Hún tilkynnti Ráðhildi líka um dugnaðinn þegar við mættum þangað í morgun og uppskar mikið lof fyrir. Sennilega hefur þetta verið álíka erfitt fyrir mig og hana – ég var að minnsta kosti alltaf að hlusta reglulega í nótt.
Annars er afmælisbarn dagsins hún Anna Lilja, hún er þrjátíuogeins, sem samkvæmt minni reynslu er mikið sársaukaminna en að verða þrítug. Til hamingju með daginn, Anna!