Gömlu goðin

Ég tilheyri þeim stóra hluta sem fór á tónleikana í gær til að uppfylla gamlan draum, hef sem sagt ekki verið að gefa þeim mikinn gaum síðustu árin. Búin að taka síðustu daga í ærlega upprifjun og það hefur verið býsna skondið. Maður hlustar dálítið öðruvísi á lögin en í gamla daga. Eins hef ég tekið ýmis lög í sátt sem mér leiddist óskaplega í denn. Til dæmis Wild boys, ef maður horfið fram hjá söngnum og sérstaklega óþolandi viðlagi, þá er þetta frábært lag. Og Careless memories rokkar feitt. Það kemst samt ekkert með tærnar þar sem Rio hefur hælana (þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um lög eins og Planet Earth, The Chauffeur og The Seventh Stranger). Ég fékk að heyra öll uppáhöldin mín í gær nema það síðast talda. Eitt lag er það sem ég get ómögulega náð að taka í sátt, það er A View to a Kill. Voðalegt lag, með voðalegum hljómborðseffektum.
Ég var búin að sverja í fyrra eftir Metallicu að fara aldrei aftur á tónleika á B svæði en þar sem þeir stóðu svona eins og fífl að miðasölunni neyddist ég til að svíkja þetta og var með Hjörvari og Magnúsi uppi á hliðarbekkjum. Í góðum fíling. Mikið var þetta ógnargaman, þrátt fyrir daufan miðkafla, þá náðu þeir svo geðveiku trukki í lokin. Ég keyrði heim eftir tónleika með Duran undir geislanum og brosið allan hringinn. Gott ég klikkaði ekki á þessu.