Blindur fær sýn

Ég fór í sjónmælingu á föstudag, í tilefni af opnun nýrrar gleraugnaverslunar og frírrar mælingar ef maður keypti gleraugu. Þar sem það hefur verið á todo listanum í nokkurn tíma ákvað ég að kíkja á þetta og sjónmælingin var meira hugsuð sem bónus. Nema hvað, kemur ekki í ljós að ég er á hraðri niðurleið og varla hægt að segja tölurnar upphátt (eða skrifa opinberlega þeas). Og sjónskekkja að auki. Stefnir í óefni. Nýjustu tölur segja mínus sjö og sjö og hálfur. Maður verður nú ekki öllu sjóndapurri en það!! Stefnan er að fá sér ný gleraugu í tilefni vaxandi sjóndepurðar en verandi með svona sérlega lélega sjón þarf að sérpanta glerin og verðið eftir því.

Annars hefur helgin verið góð. Hefðbundið ídól með tengdamömmu á föstudag, spilakvöld með stærstu fjölskyldu sem við þekkjum – Kötu og Jóa (dæturnar allar að mestu leyti sofandi) – á laugardag og svo fengum við Elísu og Sunnevu í mat í gær í dýrindis önd og tertu. Ekkert nema gott um það að segja.

Einhver dóni reyndi síðan að keyra mig niður í morgun. Svínaði vandlega út úr Skólastíg eins og það væri einhver hægri réttur þar. Aðeins snör viðbrögð mín forðuðu árekstri. Ég skalf í langan tíma á eftir. Ef þið þekkið dónabílstjórann á NN 260 megið þið skamma hann.

Enn einhver veikindi að hrjá Strumpu og fer að líða að því að þurfi að láta einhverja meiri sérfræðinga líta á hana. Vel á þriðju viku sem hún hefur haft hita og heldur meiri í kvöld en áður. Alltaf þegar ég held að það sé að lagast, þá klikkar það 🙁