Það virðast hvíla á okkur álög með dvd spilara. Það er reyndar full löng saga að segja frá fyrstu kaupunum, nema hvað við keyptum í allt þrjá spilara í fyrsta umgangi, til þess að fá einn sem réði við region 1 og 2. Nema hvað, eftir tvö ár eða eitthvað fór hann að hiksta og brasa og þá keyptum við okkur nýjan, „ógurlegan“ Sony spilara. Hann reyndist okkur að vísu ágætlega (og virkar enn á nýju heimili eftir því sem ég best veit) en það kom að því að okkur langaði að uppfæra í heimabíó og keyptum sett, enn og aftur frá Sony. Sá hinn nýi (gæti verið svona þriggja ára, sennilega frekar tæplega það samt) var fljótlega með leiðindi og stæla en við hunsuðum það vegna þess að það er svo ógeðslega leiðinlegt að fara með græjur í viðgerð. Nema hvað, hann náði nýjum víddum í fyrrakvöld, þá horfðum við Kristín á eina danska og það var bara eins og væri verið að spila lúna vinylplötu, slíkir voru brestirnir í græjunum. Svo við erum í klemmu hvað er best að gera. Því miður virðist eina rétta skrefið vera að fara með hann í viðgerð en það er augljóslega vondur kostur.