Ég átti samtal við dóttur mína í gær, sem ég hafði ekki búist við næstu árin. Hún segir við mig upp úr þurru að sig langi í eyrnalokka og þegar ég hváði eitthvað, þá endurtók hún ósk sína og bætti við -og göt. Þá þyrmdi heldur betur yfir mig og ég hugsaði því foreldri þegjandi þörfina sem lét litlu dóttur sína á leikskólanum fá göt í eyrun og vakti þar með athygli dóttur minnar á fyrirbærinu. Svo ég spurði lymskulega hver væri með göt í eyrunum og ekki stóð á svari, en það var ekki alveg á þá leið sem ég bjóst við. Jú, það er nefnilega Adam. Adam who? Ég áttaði mig ekki alveg á hver þessi nýi vinur væri, en þegar Strumpan endurtók að Adam væri með eyrnalokka, kveikti ég. Umræddur vinur er hluti af dúóinu Adam og Jamie (les. Kjeimí þegar maður er tæplega þriggja ára) og þeir eru með þátt á einhverri stöðinni sem heitir Mythbusters. Þetta horfa þau feðgin iðulega á og sú stutta vitnar reglulega í þá vini sína. Þarna sér maður þessa foreldra!!! Hvað er börnunum boðið upp á?