Langur og leiðinlegur dagur í vinnunni í gær. Endaði á maraþonfundi þar sem formaður Félags framhaldsskólakennara reyndi að réttlæta samningana við menntamálaráðherra. Hún náði vægast sagt ekki að kristna mig og fæsta hér held ég. Ég var ekki í stuði til að gera eitt né neitt þegar ég kom heim um sex. Þar af leiðandi skrópaði ég í leikfimi og fór í búðina til að kaupa þægilegan mat. Grilluðu kjúklingarnir voru uppseldir svo ég neyddist til að kaupa hamborgara! Eftir afar sveittan og grísugan kvöldverð hafði ég svoldið samviskubit og það versnaði snarlega þegar Kristín afboðaði göngutúrinn. Til að vinna á samviskubitinu dreif ég mig í sund. Nema hvað, hamborgaraorkan er greinilega bein innspýting (að vísu fer eftirbragðið ekki vel í munni og meltingarvegi) því ég synti kílómeter. Mér er til efs að ég hafi gert það áður. Einhvern veginn man ég skólasundið sem eilíft svindl. Að minnsta kosti eru þá mýmörg ár síðan.