Það brennur mikið á manni þessa dagana sú fyrirhugaða framkvæmd Þorgerðar Katrínar að skera stúdentsprófið niður. Af einhverjum ástæðum eru margir sem halda að kennarar séu bara að mótmæla af því að þeir eru svo hræddir um að missa starfið. Ég held að það séu fæstir í þeirri stöðu. Hins vegar sjá þeir ekki að þetta gangi upp eins og það er lagt upp með. Það sem mér finnst hvað einkennilegast er, að það er algjör tíska að tala um menntun fyrir alla og einstaklingsmiðað nám. Mér finnst nefnilega að það gangi þvert gegn því að ætla að troða námsefni sem samsvarar 12 einingum niður í grunnskólana – eins og þeir séu að útskrifa alla miðað við þau markmið sem nú eru. Oneinei. Því fer fjarri. Það er engin vafi á því að margir ráða við hraðari og meiri yfirferð. Enda væri það bara af hinu góða að koma því á. En það er sömuleiðis enginn vafi á því að stór hluti ræður ekkert við það sem nú er gert, miðað við núverandi forsendur, hvað þá þegar er bætt við.
Á vef Sverris Páls má finna afar merkilegar umræður á kommentakerfinu, við færslu frá því 8. febrúar. Þar fara einhverjar systur tvær hamförum á móti honum. ÚFF!