Sveitin fátækari

Í gær lést tengdaafi í sveitinni eftir rétta viku á sjúkrahúsi. Ekki óvænt, því hann var búinn að vera lélegur lengi. Við höfðum þekkst í rúm níu ár, hittumst fyrst jólin ´96. Okkur kom afar vel saman, enda varla hægt annað. Hann hafði afar notalega og hlýja nærveru. Yfirleitt rólegur, talaði lágt og fór lítið fyrir honum. Einn af þessum gömlu sem hafa upplifað svo miklu meira en maður á sjálfur eftir að gera.
Það var afar fróðlegt að heyra hann segja frá og miðla, sérstaklega um fólkið sitt og sveitina sína. Hann þekkti hvern blett í kringum sig og vildi hvergi annars staðar vera. Það getur auðvitað verið galli en er afar fallegt samt sem áður. Fallegt að vera svo nátengdur sinni þúfu að það er óhugsandi að vera ekki þar. Munkaþverá verður að minnsta kosti fátækari eftir gærdaginn. En það á eftir að fara vel um gamla í garðinum sem hann hélt svo mikið upp á.
Svona er lífið, einu laufinu fátækara á ættartrénu okkar, við söknum þess en vitum að tíminn var kominn og getum glaðst yfir að örlögin héldu honum ekki lengi frá staðnum sínum.

Ég sagði Strumpu tíðindin í gærkvöld. Vissi ekki alveg hvernig ég ætti að snúa mér í því og saknaði þess svolítið að hafa engan guð að grípa í. En Jónatan (froskurinn á leikskólanum) hafði gengið á undan með ágætu fordæmi, var jarðaður með viðhöfn og ég sagði að langafi ætti að fara í kassa, eins og Jónatan og sofa í honum. Þetta varð að miklu atriði, hvernig á eiginlega kassinn hans langafa að vera á litinn?