Það er kominn tími á að kisumamman standi undir nafni og komi með kisusögur og eins og stundum áður tengjast þær mat. Prinsi minn er aðal sökudólgurinn í málinu eða liggur alla vega alltaf fyrstur undir grun. Í síðustu viku vorum við eitthvað nísk á matinn, hvort það var fyrir nóttina eða eftir morgunmatinn. Að minnsta kosti blasti fyndin sjón við þegar við komum inn í eldhús eftir hungurtímabilið. Þá hafði einhver, væntanlega nær dauða en lífi af hungri, ákveðið að borða það sem í boði var. Að þessu sinni sveskjubiti, sem var í plastpoka. Það var búið að naga vel af einu horninu, enda er allt hey í harðindum og sökudólgurinn hrifnari af sveskubita en ég. Í morgun var Prins hins vegar staðinn að verki – tók við morgunverðinum þar sem ég hvarf frá honum eftir að Strumpa vaknaði!! URR eða kannski hvæs, þvílíkur bjáni. Eins gott að það var ísterta með kaffinu í morgun til að bæta mér þetta upp.
Annars er mikil menningardagskrá þessa dagana. Við fórum á Maríubjölluna í gærkvöld. Fín sýning, þó svo hún standi kannski ekki undir öllu kreminu sem hefur verið hlaðið á hana. En vel þess virði að sjá hana. Líka rass og brjóst í boði. Ég hlakka jafnvel enn meira til að fara á Kardemommubæinn á sunnudag. Við mæðgur teljum ákaft niður og æfum okkur að syngja með. Mikil gleði og tilhlökkun.