Við áttum sem sagt sex ára brúðkaupsafmæli í gær. Átti að taka daginn með trompi og það gekk svo sem framan af. Fengum Árnýju, Hjörvar og dætur í heimsókn, sú stutta tók feimnisatriðið sitt í smá stund en það rann síðar af henni. Eftir heimsóknina tókum við gott rölt, reyndum að enda hjá Gylfa en þar var enginn heima. Síðan var farið frameftir í kaffi á Munkaþverá. Reyndum mikið að finna pössun til að geta farið út að borða en það var gjörsamlega vonlaust. Öll familía Mumma úr bænum og mín óínáanleg. Nema hvað, þegar við komum heim er ljóst að Strumpan er orðin lasleg, var mæld með yfir 39 stiga hita og við fórum og lögðum okkur saman. Síðan vaknaði hún eftir góða stund, þá komin með yfir 40 stiga hita og svo augljóslega mikið lasin. Kvartaði um magapínu og endaði á því að gubba. Þá leist mér ekkert á og hringdi á lækni og við enduðum á sjúkrahúsinu. Þar var frökenin skoðuð hátt og lágt en ekkert fannst. Það bráði líka vel af henni og hún var orðin hin hressasta og vel spjallfær, þangað til við vorum útskrifuð – með þau ummæli að þetta væri líklega bara magapest – þá gubbaði hún aftur. Við fórum samt heim, með þeim fyrirvara að við gætum komið aftur ef eitthvað væri. Strumpan fór beint í háttinn og sofnaði strax, en við fengum okkur Greifa pizzu og bragðaref – til að gera okkur einhvern dagamun. Nóttin var óróleg með gubbi og stílum á víxl og sú stutta hefur legið fyrir í dag, enn með háan hita en ekkert gubb. Svona fór um rómantíkina!
Mánaðarskipt færslusafn fyrir: júní 2006
Það er komið sumar
eða þannig og sól í heiði skín. Hér er mestu törninni að ljúka – lauk við að gefa einkunnir um miðnættið í gærkvöld. Mikið framundan – ættarmót hjá Mumma slægt um helgina og síðan DK og Svíþjóð – júúhúuuú, ég verð í Köben eftir 5 daga! Fæ aðeins að rölta um danska grund, einn dag eða svo, síðan er haldið yfir til Svíþjóðar til að skerpa aðeins á sænskunni og kannski í leiðinni að flikka upp á bústaðinn og heilsa upp á gamla vini í HogM og Kappahl 😉
Alltaf verið að spá og spekúlera með GM ferðina í nóvember. Nú var ég að leigja íbúð undir liðið á Österbro með útsýni til Svíþjóðar, svona á góðum dögum amk. Kostar skid og ingenting, sem er náttúrulega bara gott eftir að hafa splæst slatta *hóst* í tónleikamiða.
Einræðisherrann aðeins rólegri þessa dagana. Væntanlega bara til að plotta næsta áhlaup á foreldrana. Það hlýtur eitthvað að koma. Hún er nýlega búin að uppgötva Prumpulagið, mér til mikillar mæðu, mér sást yfir að það væru mistök að leyfa henni að heyra það. Mikil lukka á bænum (einbúabænum) með þetta fína lag – enn finnst mér svoldið skondið að hlusta á hana syngja það, en það bráir væntanlega af mér fljótt.