Útskrifuð sem þriggja og hálfs

Jæja, Strumpan fór í síðari hluta þriggja og hálfs árs skoðunar í morgun. Hafði hitt Pétur, sinn góða vin á mánudag og hann átti varla til orð yfir hvað hún var þæg og samvinnuþýð, fannst læknaneminn sem hann hafði sleppa full ódýrt.

Sú stutta var býsna samvinnuþýð í morgun, þó ekki alveg, því hún var alveg á móti því að láta mæla eitt auga í einu og fór í langan baklás og var ekki til neinnar viðræðu, alveg sama þó fögur orð Péturs væru rifjuð upp. Þetta hafðist þó að lokum.

Öll próf gengu að sjálfsögðu vel en ég get samt ekki að því gert að mér finnst hluti þess vera afar asnalegur. Ég tala til dæmis lítið við hana í þolmynd! verð kannski að bæta úr því, en hún var beðin að sýna strákinn sem var klipptur af stelpunni og þá var mynd af strák að klippa stelpu og stelpu að klippa strák! Duh. Strumpan féll kylliflöt í þessa gryfju.

Eins fékk hún „mínus“ fyrir að kalla rimlarúm bara rúm en ekki barnarúm. Wow, ekkert smá lélegt. Hins vegar var hún bara látin telja upp í sjö og benda á hvar væru tveir hlutir og hvar þrír hlutir. Ég fékk eiginlega kjánahroll yfir hvað er mikil ósamræmi eða þannig.

Að lokum mátti hún velja sér verðlaun, eins og á mánudaginn og hún valdi sér sömu verðlaun í dag. Það er lítið sem þarf til að gleðja hana, hún valdi sér blöðru í bæði skiptin! Átti þó mjög erfitt val í dag, þar sem einnig kom til greina að fá háhyrning sem hefði sómt sér vel í baðið og hún vildi helst fá hvoru tveggja en sættist á að fá blöðru. Lærdómurinn er sá, að stundum fer maður offari í því hvað þarf til að gleðja börnin manns og kaupir miklu meira en þarf og venur þau þannig við að gleðjast ekki nema yfir miklu. Maður verður heldur betur að passa sig með þetta.