Ferðin í borgina reyndist ótrúlega góð og furðu lítið stressandi miðað við það sem ég hafði búist við. Réði þar líklega mestu að búðarferðir voru fáar og IKEA ekki eins yfirþyrmandi og ég átti von á. Náðum tveimur útskriftarveislum, öðrum með slíkum tertum að það varð líkamanum nánast ofviða að borða allt sem ég lagði á hann. Að minnsta kosti tók ég væna hvíld á eftir. Sú hin síðari svona jarðbundnari með framboðið af kökum, blessunarlega, því annars hefði ég ekki viljað vera að keyra heim. Sú stutta sýndi enn og sannaði að Reykjavíkurþol hennar er lítið, hún vildi fara heim strax á öðrum degi. Átti þó góðar stundir, meðal annars með frænkum sínum Hrefnu og Unu í tvígang. Henni leist svona ljómandi vel á nýju klippingu frænkunnar og pantaði sér svoleiðis. Ég lét eftir henni að fara í klippingu en það var nú ekki á þeim róttæku nótum sem hún hafði hugsað sér. Ég fórnaði (nota bene – ég) þó miklu hári af henni.
Síðan eru bara haustannir miklar. Í næstu viku á nefnilega að vera miðannarmat í skólanum og nú er það bara vinna á hverju kvöldi. Ritunarverkefni, logbækur, spóluverkefni. Ég verð til viðtals eftir mánaðarmót.