Fríið mikla

Jamm, þá er hafið haustfrí, ja, eða vetrarfrí. Notaði ég tækifærið og svaf til ellefu og vel það í morgun og hef verið þreytt síðan. Mér fannst ég alla vega eiga innistæðu fyrir því, enda vakað óvenju langt fram eftir alla þessa viku, suma daga jafnvel fram yfir miðnættið!

Fórum í leikhús í gær, hjónin. Mér hafði þó tekist að týna árskortinu en það leystist farsællega. Þetta var sýningin Hr. Kolbert. Án þess að spilla neinu held ég að mér sé óhætt að fullyrða að þetta er verk sem ýtir dálítið við manni, ýmist fyndið eða sorglegt og gengur reglulega fram af manni. Biskupssonur sem leikur í öllu hér þessa dagana, þetta er bara eins og að horfa á danska bíómynd, kom mér reyndar skemmtilega á óvart með frekar hófstilltum leik. Mér hefur alltaf fundist hann vera með sömu fíflataktana í öllu sem hann hefur gert.

Plön helgarinnar eru lítil, þó kannski að fá Hönnu og Ármann í mat annað kvöld. Það er þó óráðið. Ég er ein heima í augnablikinu, ætla að horfa á sjónvarp eftir því sem svefnheilsa endist til. Verð líka að fara að lesa Tíma nornarinnar því ég á víst að geta sagt frá henni í krimmaklúbbi á þriðjudag.

Getiði svo hvað eru margir dagar í GM? Jamm, bara átta dagar. Þetta er allt að koma 🙂