Jæja, ég náði að byrja jólakortaskrifin á sunnudagskvöld. Reif upp jólastemminguna eftir tómleikatilfinninguna sem greip um sig eftir að Ørnen var búinn fyrir fullt og allt. Þannig að Norðurlandakortin fóru í póst á mánudag. Ég er líka búin að skreyta lítillega í viðbót, fór nefnilega í Bakgarðinn, sem er unaðsleg búð í kjallaranum á Zíon. Mikið af sætu skandinavísku jólaskrauti þar, ég var næstum búin að kaupa jólagrís sem var ógurlega sætur. Hins vegar eru verðin ekki alltaf við mitt hæfi þannig að ég neyðist til að hemja mig.
Við fórum líka í Kjarnaskóg á laugardaginn og keyptum minnsta jólatréð sem við fundum og nú er bara að sjá hvernig við komum tveimur jólatrjám fyrir. Hins vegar sveik ég dóttur mína um jólasveinana á svölunum, mundi vitlausa tímasetningu og sú stutta var ekki kát. Í öllum klögunum minnti ég hana á hvað við værum búin að gera margt skemmtilegt og þá væri nú kannski við hæfi að muna það og vera glaður en hún svaraði bara um hæl að það væri í lagi að vera leiður þegar maður hefði misst af einhverju. Hún er hins vegar á Litlu jólum í dag á leikskólanum, fór í jólasveinadressinu frá Önnu Steinu, alveg alsæl og fullviss um að slá í gegn hjá jólasveinunum.
En já, í tómleika mínum vegna Arnarins fór ég á vef RÚV og fann út að það á að sýna tvo síðustu þættina af Krøniken um jólin, annars vegar annan í Jólum og hins vegar annan á nýju ári. Meira að segja bara degi síðar en á DR. Og á vef DR fann ég út að það er að koma ný sería þaðan, hefst í janúar svo nú eru laugardagskvöld frátekin danska sjónvarpinu. Þetta er krimmasería og heitir Forbrydelser. Gott að hafa eitthvað að hlakka til.