Góðir vinir í útlöndum

Jamm, vinur minn hann Ruben Gonsales hefur önnur jólin  í röð ákveðið að senda mér jólakort og virðist ekkert hafa móðgast þótt ég sendi honum ekkert í staðinn. Eitthvað er hann samt ryðgaður, því hann stílar það á Stekkjargerði 6 en það eru víst komin 7 ár síðan ég flutti þaðan. Gott að hann hugsar fallega til mín. Verst að ég veit ekkert hver þetta er.

Annars átti ég ágæta jólastund í gær – þið vitið þá hvað það er ef þið fáið jólakort seint og illa, ég er bara úti öll kvöld núna. Það var sum sé jólakaffi í MA í gærkvöld og það var afar indælt, hinir ýmsu gömlu starfsmenn og kennarar, Árni gamli á skrifstofunni, Ásmundur og fleiri sem var voða ljúft að sjá. Kökuhlaðborð, spjall (jess Unnar samkennari minn hélt að ég væri álíka gömul og hann, sem sagt fædd um 1980, jólunum er reddað) og svo söngur og sýning á myndum frá gömlu þorrablóti kennara árið 1970, Rafn þar á meðal afar ungur og grannur 😉 Já, það er ekki að ástæðulausu að ég elska skólann minn. Það er svo falleg sál í honum.

Í fyrrakvöld fórum við einnig út, í það skiptið í jólaglögg til Ægis og Dagnýjar. Það var einnig góð stund og góðar veitingar. Svona á desember að vera – bara að ýta jólakortunum á undan sér og eiga þess í stað ljúfar stundir með vinum. Sorrý vinir á jólakortalista ef kortin koma eftir jól!