Leti

Að þessu sinni er það ekki ég að kvarta hástöfum yfir eigin leti. Neibbs. Ég var á dauðasyndafyrirlestri í dag, fluttum af Þorvaldi Þorsteinssyni. Þar sem ég þjáist af þeirri veiki að vera yfirleitt sammála síðasta ræðumanni þarf ekki að koma á óvart að ég var yfir mig hrifin af Þorvaldi. Hann er afskaplega líflegur ræðumaður og sköruglegur og virkar bara svo klár. Inntakið hjá honum var að andleg leti væri dauðasynd. Til dæmis að maður eigi að spyrja sig erfiðra spurninga og taka afstöðu. Þetta er bara alveg öldungis rétt en því miður auðveldara að vera sammála því heldur en gera actually eitthvað í því. Ég ætla samt að reyna að muna þetta, og kannski gera eitthvað í því stundum.

Að öðru, eins og sést hér neðar var Strumpan afar sátt við gærdaginn. Tók sig vel út og fékk að launum heilan pakka af Púkanammi. Hann var þó því miður gerður upptækur af móður og fær að bíða nammidags. Jamm, það er gott að hemja sælgætisátið á meðan maður getur.