Það er ekki þverfótað fyrir félagslífi þessa dagana. Ekki nóg að maður sé búinn að fara vikulega að hlusta á fyrirlestra með tilheyrandi pössun, heldur eru föstudagskvöldin núna undirlögð. Síðast var það árshátíð hjá vinnunni hans Mumma, haldin í Gamla Lundi. Mjög gaman en frekar voru nú skötuhjúin róleg í tíðinni, komin heim um hálf eitt. Annað kvöld er hvorki meira né minna en þrennt í boði. Það er reyndar bara eitt sem kemur til greina, því nú er komin að tónleikunum með Lisu Ekdahl. Þar af leiðandi missi ég af Gettu betur, MA á móti Versló, sem verður sent út beint frá Íþróttahöllinni. Ég er frekar leið yfir því, enda á ég sælar minningar síðan við tókum VMA í nefið hér í gamla daga. Að auki stendur mér til boða að fara í partý til Auðar. Svona er þetta alltaf.
Annars standa mér líka ferðalög til útlanda í boði. Jamm. Ég má fara til Rhodos í tvær vikur í haust. Eini böggullinn sem fylgir því skammrifi eru svona eins og 100 snarvilltir 19 ára unglingar. Svo ég bauð mig ekki fram. Maybe next year, sérstaklega ef það verður boðið upp á örlítið meira spennandi stað.