Pakkahátíðin mikla

Það voru heldur betur að berast pakkar til Strumpu í marga daga. Síðast í gær fór ég á pósthús og náði í sendingu frá frænkunum í Reykjavík. Sú stutta fór í ofur væmna kastið þegar hún opnaði og sá dúkkuna og skartið sem kom úr pakkanum. Hún á þetta til með dúkkur, dýr og lítil börn, að verða svona líka væmin. Allir pakkar hafa vakið mikla lukku, reyndar var hún tekin í bakaríið um jólin eftir að einhver pakki hafði verið afar ómerkilegur að hennar meiningu. En til marks um alla lukkuna, þá töfrar hún núna við öll tækifæri með nýja töfrasprotanum, þurfti meira að segja að sofa með hann uppi í rúmi fyrstu nóttina og ég rétt náði að stöðva það að hún svæfi með vængina á bakinu!

Ein kisusaga að lokum. Prins Valíant er svo fínn með sig að glugginn sem þeir nota sem flóttaleið frá húsinu dugar ekki sem innkomuleið líka. Kannski er erfiðara fyrir stóra gamla hjassa að troðast inn en út. Sem betur fer hefur hann fundið nýja leið. Á afmælisdaginn reyndi hann að nýta sér þann möguleikann óspart vegna þess að honum var úthýst vegna kökuhlaðborðsins.  Hann stekkur nefnilega upp á gluggasyllu á litla eldhúsglugganum sem er við útidyrnar og þar sem það er hleri í gluggakistunni, þarf hann að standa á afturfótunum svo hann sjáist. Ef enginn tekur eftir honum þar, þá bankar hann með framfætinum. Þetta þótti ógurlega fyndið í afmælinu, örvæntingafulli bankandi kötturinn :).

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Fara í tækjastiku