Þegar ég fór á hlaupanámskeið í vor var meiningin alltaf að vera tímanlega í undirbúningi fyrir Akureyrarhlaupið svo maður gæti kannski stefnt að betri tíma (nú eða vera ekki síðust í mark 🙂 ) en undir lok námskeiðs var ég farin að finna fyrir verkjum í sköflungum eða þar um bil. Þetta heitir eitthvað sem ég man ekki í bili. Þess vegna varð síðasta vikan léleg en ég hélt að utanlandsferðin myndi lækna öll mín mein. Því var öðru nær því strax í upphafi ferðar var ég komin með asnalegan pirring í hægri fótinn og var meira og minna hölt alla ferð. Fljótlega eftir heimkomu fór ég á íbúfenkúr sem lagaði þetta býsna vel. Þá ákvað ég að láta reyna á frekari hlaup, enda alltaf með Akureyrarhlaupið í kollinum. Nú er ég búin að hlaupa þrisvar, fóturinn böggar mig aðeins en ég nenni ekki að láta hann stöðva mig. Áðan tók ég ágætan hring, svona sirka 7 kílómetra og sá að þetta væri býsna vænlegt til að hafa 10 kílómetrana af (sjáum til með tíma…) en þá rifjaðist upp fyrir mér að ég á víst að vera á námskeiði frá 9 til 15.30 þennan laugardag 🙁 . Sem þýðir að það er bara eitt í stöðunni – ég mæti í hlaupafötunum á námskeið og sting svo af til að hlaupa. Við tungumálakennararnir verðum sem sagt í einhverju lotunámi í vetur og það hittir akkúrat á þessa helgi. Bwahh.
Það er líka í fréttum að ég er búin að skrá mig á aðhaldsnámskeið á Bjargi í 14 vikur, byrjar á mánudag. Nú á að endurheimta árans fataskápinn! Að minnsta kosti einhvern hluta hans.