Ég hef ekki staðið mig sem skyldi í blogginu, hef nóg um að skrifa en ekki komið því í verk. Í réttri röð er þetta svona; Halastjarnan, föstudagur 1.febrúar. Fordrykkur. Fimm réttir frá kokkinum. Hvítvín, rauðvín (nema Mummi bílstjóri – ég fórnaði mér í alkóhólið.) Fyrst grafin nautalund, þá hvítlaukssteiktur humar, svo hunangsheitreiktur lax (og ég farin að dást að mér að geta borðað án þess að verða södd). Síðan estragonkryddað lambafíle með rauðlaukssultu og sætum kartöflum. Þá fór að síga á seinni hluta magans. Loks rauðvínslegnar perur með skyrsósu og þá seig endanlega á ógæfuhliðina. Ég fór vægast sagt pakksödd heim en líka alsæl því maturinn var alveg unaður frá upphafi til enda og upplifunin alveg mögnuð. Ég á erfitt með að gera upp á milli Halastjörnunnar og Friðriks V. – hef náttúrulega ekki farið á nýja staðinn… en ef ég ætti shittlóds af peningum þá færi ég með alla mína vini, amk þá útlensku, að borða þarna. Magnað.
Hratt yfir sögu – bíóferð á fimmtudag á Flugdrekahlauparann. Grét mikið, hefði jafnvel þurft rúðuþurrkur á kinnarnar. Leikhúsferð í gær – jafnaði út andlegu hliðina. Hló samt ekki svo mikið að ég gréti, sem betur fer var ég þurrausin tárum eftir bíóið. En sýningin fínasta afþreying án þess að ég sé mikið fyrir farsa. Absúrd mörkin mín eru frekar viðkvæm. Þurfti samt að fórna tvöföldu dönsku sjónvarpskvöldi sem verður í staðinn annað kvöld. Sommer endursýndur á DR1 og Forbrydelsen endursýndur á RÚV.
Annað síðan síðast – bílaævintýri með tengdamömmu við stýrið og Villa að draga okkur úr skafli (dóttir mín vissi ekki hvort hún ætti að vera hrædd eða hrifin af frænda sínum), tvöfalt fertugsafmæli á Hótel KEA hjá LC systrum mínum, frábær Gettu betur keppni á föstudag. Strumpan að farast úr stressi með gengi síns liðs. Matur hjá Hönnu og Ármanni á laugardagskvöld, med det hele eins og venjulega, unglingakast dauðans hjá afkvæminu á laugardag þar sem fórnarlambs-hlutverkið var spilað til fulls. Frunsa – fyrst í eintölu og svo í fleirtölu síðustu ellefu dagana, farin að taka lýsi að ráðum Ármanns. Hér er sem sagt alltaf stuð og nóg að gera.
PS Listamaðurinn kemur á morgun. Ég lofa.