Mánaðarskipt færslusafn fyrir: ágúst 2008

Hún á afmælídag

Jamm, afmælisdagurinn að verða liðinn. Á morgun verð ég nær því að verða 40 en 30. Ákveðið sjokk, svona forsjokk fyrir fertugsafmælið. Bauð aldrei þessu vant í smá kaffi og átti huggulegan dag, kom mér þó nánast hjá öllu og bakaði bara eina köku, lét svo Bakaríið við brúna og Nettó um rest. Lífið að bresta á eftir utanlandsferðina. Hún var eins unaðsleg eins og ég vonaði. Góðir og rólegir dagar í Svíþjóð, aðeins meira prógramm í Danmörku. Sóley fékk heilan dag í Tivólí, það voru fáir þar, engar raðir og alles, enda skúrir af og til. Ég skellti mér í Dæmonen, það fer hver að verða síðastur, ég er að verða svo kjarklaus með aldrinum. Síðan tókum við smá Striksrölt og Planetarium seinni daginn. Ljómandi  gaman það. Svo var gistingin skemmtileg á sinn hátt. Í eðal gömlu húsi á Christianshavn – mjög heimilislegt allt saman. Kettlingafull læða einn heimilismeðlima og sá eini sem við áttum einhver samskipti við eftir að lyklaafhending fór fram. Sóley vonaði allan tímann að það drægi til tíðinda með hana, en það hafðist ekki. Staðsetningin var snilld, svona 3ggja mín. rölt í strætó og metro svo það gat ekki verið einfaldara. Keypti alveg bönns á Sóleyju en minna á mig. Bætti þó aðeins upp fyrir það í gær þegar ég fór á fatakynningu hjá svilkonu minni 😉 .

Svo styttist bara í skólabyrjun, haustpróf í næstu viku og fjarkennslan að byrja. Ég er með stundaskrá dauðans, en afar þægilega stærð á bekkjum, verð bara að hugga mig við það. Maður er aðeins að komast í gírinn að byrja.

Litla íþróttafjölskyldan

Jamm, Strumpan er þá nýbúin á skautanámskeiði og er efni í mikla listskautamær. Að minnsta kosti er hún hörð á því að fara að æfa skauta og hefur fengið vilyrði fyrir því, svo fremi sem það rekist ekki á fimleikana. Þeir eru nú sem betur fer bara einu sinni í viku, á laugardögum. Sú stutta spurði á lokadeginum hvort það væri búið að ákveða hvenær æfingarnar yrðu. Nei, það var ekki búið. Þá vildi hún vita um líkurnar á því að það yrðu æfingar á laugardögum. Nei, það voru litlar líkur á því. Þá kom eitt stórt „hjúkkit“ frá Strumpunni. Svo það stefnir allt í skautaæfingar ofan á fimleika og fiðlu. Hún hefur nú þegar náð ágætum tökum á að renna sér en finnst meira sport að æfa sig að fara í hringi heldur en að skauta.

Við ákváðum svo í síðustu viku að láta hana hjóla af og til heim úr leikskólanum. Þá er hjólið með í bílnum að morgni og skilið eftir. Fyrsta skiptið var ekki vel heppnað. Þá gengum við Mummi í leikskólann og hún hjólaði heim með mörgum stoppum og miklu væli. Það sýndi líka svart á hvítu að gamla hjólið var orðið of lítið því hún náði fótunum varla úr 90°. Við höfðum nefnilega ákveðið að láta hana ná góðum tökum að hjóla án hjálpardekkja áður en stærra hjól kæmi í hús. En þetta gekk ekki svo við brunuðum til Vidda og þar fengum við forláta hjól, mjög smart appelsínugult og æfingahringurinn í Holtateigi á eftir gekk vonum framar. Tveim dögum seinna var gerð önnur tilraun til að hjóla heim og þá brunaði sú stutta alsæl, ekkert væl og bara smá stopp. Aðallega til að leyfa þeim gömlu að ná andanum. Nú höfum við sjálf hjólað með henni heim síðustu daga. Það gengur vonum framar. Lítill athyglisbrestur – þó er Mummi hafður fremstur og ég aftast til að lágmarka áhættuna, hún brunaði nefnilega fram úr pabba sínum í gær og klessti þá á bekk við elliheimilið. En það varð ekkert stórslys úr því.

Svo er bara DK á morgun. Planið er reyndar að taka lest strax yfir til Malmö, gista þar í eina nótt, taka svo bílaleigubíl og vera í bústaðnum. Enda svo í tvær nætur í Køben á bed and breakfast á Christianshavn og taka duglega á því.

Ég bið að heilsa Nýdönsk og Jet Black Joe ef einhverjir fara á tónleika. Það var nú lengi í kollinum á mér að drífa mig suður en þrátt fyrir allt þá elska ég Danmörk meira en Nýdönsk svo valið var ekkert erfitt. En ég verð með þeim í huganum.

Rússíbanani

Jæja, það var tekin skyndiákvörðun í gær að skella sér til útlanda í viku. Fór nefnilega að skoða tilboð hjá Express og fann svo gríðarlega góð verð á beinu flugi til Køben. Svo við förum á föstudag og verðum eina nótt í borginni, förum síðan í bústaðinn í fjórar nætur og tökum smá Købenfíling í bakaleiðinni. Því miður náði ég ekki að samræma þessa ferð við GM á Parken 30. ágúst, enda seldist upp á tónleikana á klukkutíma. En jibbí skibbí ég er að fara til Danmerkur.

Þeirri minnstu voru flutt tíðindin í kvöldmatnum í gær (ekki daglegt brauð að tilkynna að maður fari til útlanda eftir fjóra daga) og þegar hún átti að giska hvað væri svona spennandi þá sagði hún að það væri líklega afmæli eða Tívolí. Nokkuð nálægt lagi, við munum náttúrulega taka Tívolí túr með meiru og líklega halda smá upp á afmælið mitt. Hún er sem sagt mjög spennt að fá að fara í rússíbanana (þessa villu ætlar hún ekki að leiðrétta, enda miklu skemmtilegra orð.)

Að lokum, smá skáldskapur (sem Strumpa fullyrðir að hún hafi samið…?);

Gamli Nói, Gamli Nói, er að suss’á börn

Kann hann ekki að sussa,

Lætur börnin frussa

Gamli Nói, Gamli Nói, er að suss’á börn

Margt á hjarta

Eins og venjulega er ég blogglöt en samt gerist alveg nóg að skrifa um. 1) Nýdönsk var æði. Auður kom norður og bjargaði mér. Ég setti á mig Obsession, dró upp gömlu hliðartöskuna, og fór í græna ruslapokann og leið alveg eins og ég væri 18, eða close enough. Nýdanskir brugðust mér ekki, Björn Jr. gleymdi textanum við Apaspil og þurfti að fá Jón til að leiðbeina sér aftur. Saknaði Cheers en kannski tóku þeir það eftir að ég fór. Ég var sem sagt ekki allan tímann, aðallega af því að ég vildi ómögulega ganga alein heim og tímdi að sjálfsögðu ekki að taka leigubíl.

2) Fiskidagarnir á Dalvík að vanda góðir. Tókum bæði súpurölt á föstudag (þó ekki hjá Svansý og Loga… ) og fiskismakk í gær. Dalvíkingar eru bestir og gera þetta svoooo vel. Og af því að bróðir minn segir að maður eigi að blogga um fræga fólkið þá fljóta hér orðaskipti Hafdísar (að útskýra fiska fyrir Sóleyju) og Matta Matt. með. H: Þetta er örugglega kolkrabbi. M. Nei, þetta er smokkfiskur. H: Ó, jæja, you tell me.

3) Búin að labba og hlaupa í vikunni. Tók lííítinn hlaupatúr á þriðjudag við mikið erfiði og gekk bæði með Kristínu og Orgelstelpunni. Gæti þess að borða hæfilega mikið til að eiga orku í þetta allt.

4) Hef staðið mig vel í uppeldinu. Fór með Sóleyju á Mamma Mia og sú stutta er orðinn aðdáandi. Tek hana síðar á Nýdönsk, hún var mjög súr að fá ekki að fara með!