Litla íþróttafjölskyldan

Jamm, Strumpan er þá nýbúin á skautanámskeiði og er efni í mikla listskautamær. Að minnsta kosti er hún hörð á því að fara að æfa skauta og hefur fengið vilyrði fyrir því, svo fremi sem það rekist ekki á fimleikana. Þeir eru nú sem betur fer bara einu sinni í viku, á laugardögum. Sú stutta spurði á lokadeginum hvort það væri búið að ákveða hvenær æfingarnar yrðu. Nei, það var ekki búið. Þá vildi hún vita um líkurnar á því að það yrðu æfingar á laugardögum. Nei, það voru litlar líkur á því. Þá kom eitt stórt „hjúkkit“ frá Strumpunni. Svo það stefnir allt í skautaæfingar ofan á fimleika og fiðlu. Hún hefur nú þegar náð ágætum tökum á að renna sér en finnst meira sport að æfa sig að fara í hringi heldur en að skauta.

Við ákváðum svo í síðustu viku að láta hana hjóla af og til heim úr leikskólanum. Þá er hjólið með í bílnum að morgni og skilið eftir. Fyrsta skiptið var ekki vel heppnað. Þá gengum við Mummi í leikskólann og hún hjólaði heim með mörgum stoppum og miklu væli. Það sýndi líka svart á hvítu að gamla hjólið var orðið of lítið því hún náði fótunum varla úr 90°. Við höfðum nefnilega ákveðið að láta hana ná góðum tökum að hjóla án hjálpardekkja áður en stærra hjól kæmi í hús. En þetta gekk ekki svo við brunuðum til Vidda og þar fengum við forláta hjól, mjög smart appelsínugult og æfingahringurinn í Holtateigi á eftir gekk vonum framar. Tveim dögum seinna var gerð önnur tilraun til að hjóla heim og þá brunaði sú stutta alsæl, ekkert væl og bara smá stopp. Aðallega til að leyfa þeim gömlu að ná andanum. Nú höfum við sjálf hjólað með henni heim síðustu daga. Það gengur vonum framar. Lítill athyglisbrestur – þó er Mummi hafður fremstur og ég aftast til að lágmarka áhættuna, hún brunaði nefnilega fram úr pabba sínum í gær og klessti þá á bekk við elliheimilið. En það varð ekkert stórslys úr því.

Svo er bara DK á morgun. Planið er reyndar að taka lest strax yfir til Malmö, gista þar í eina nótt, taka svo bílaleigubíl og vera í bústaðnum. Enda svo í tvær nætur í Køben á bed and breakfast á Christianshavn og taka duglega á því.

Ég bið að heilsa Nýdönsk og Jet Black Joe ef einhverjir fara á tónleika. Það var nú lengi í kollinum á mér að drífa mig suður en þrátt fyrir allt þá elska ég Danmörk meira en Nýdönsk svo valið var ekkert erfitt. En ég verð með þeim í huganum.