Haustferð MA var í gær og þemað að þessu sinni fossar í Bárðardal. Ég bætti tveimur nýjum fossum í safnið mitt. Ekki að það þurfi að keyra mikið og lengi til þess, ég er skammarlega lítið á ferð um landið, helst ef einhverjir útlendingar eru á ferð sem þarf að sýna einhver undur. Við skoðuðum fyrst Goðafoss, sem er reyndar sá foss sem ég hef líklega oftast séð. Ekki að maður verði leiður á því neitt. Fyrir neðan hann er lítill bróðir sem heitir Geitafoss. Hann hef ég væntanlega séð áður en ekki er hann eftirminnilegur. Eftir þessa bræður héldum við að Aldeyjarfossi sem ég sá fyrir margt löngu. Ekki var hann síðri en í minningunni. Svo fékk ég tvo nýja fossa, annars vegar Hrafnabjargafoss og hins vegar Ullarfoss. Báðir flottir og væri gaman að draga túrista að þeim. Við enduðum ferðina á Stöng í Mývatnssveit og borðuðum og skemmtum okkur. Ég fékk smá aldurskomplexa þegar ég komst að því að elsti nemendahópurinn minn er fæddur sama ár og ágæt samstarfskona mín. Ég náði mér þokkalega á strik aftur og söng með unglingunum í rútunni á heimleiðinni. Er þó afleitur rútubílasöngvari því það eru svo mörg lög sem ergja mig ósegjanlega og þá nenni ég alls ekki að syngja með. Rútusöngkona með sérþarfir. Annars tók Sverrir Páll helling af myndum, áhugasömum er bent á bloggið hans.