Fiðlusóló

Litli fiðluleikari heimilisins var með tónleika í dag. Þeim hafði reyndar verið frestað um viku en stóra stundin rann loks upp í dag. Öllu var tjaldað til, farið í rauða sænska kjólinn frá Önnu Steinu og bleika slaufunælan sett upp. Sú stutta var nefnilega með sviðsskrekk í fyrra svo ég lagði alla áherslu á að gera þetta að stórri stund. Hún var svo fyrst á svið, Tiina spilaði undir á píanó og Strumpan tók E-strengslagið með bravör. Foreldrarnir og Sigga amma í fremstu röð, eflaust öll að springa úr stolti. Það var Sóley líka. Kláraði dæmið óvenju örugglega. Við höfum æft það undanfarið að hafa höfuðið kyrrt þegar er spilað og það hafðist ótrúlega. Ekki nema smá auka tónar í laginu og takturinn alveg til fyrirmyndar. Hún fékk heilmikið hrós á eftir og fékk í leiðinni smá kennslustund í því hvernig á að taka hrósi. Hún hafði svo orð á því á leiðinni heim að henni liði svo vel í hjartanu. Ég skrapp síðan inn í Pennann til að kaupa handa henni bók í verðlaun fyrir góða frammistöðu. Hún mátti fá eftirmat (sem móðirin græddi auðvitað á líka) og við fengum okkur heimagerðan sjeik, svona eins og ég gerði með mömmu í gamla daga.

Það má segja að dagarnir séu ólíkir. Dr. Jekyll var nefnilega hér í gær og var settur grenjandi í rúmið eftir að það gekk hvorki né rak með kvöldmatinn. Þá voru foreldrarnir að springa af öðrum orsökum og ég var svo úrvinda að ég kom mér ekki að neinni vinnu. Sem betur fer eru þessir dagar færri…

Um helgina verður algjör stórhátíð. Fimmtugsafmæli hjá Öddu ömmu og af því að ég er með þráhyggju á háu stigi, eru það einnig tónleikar með Nýdönsk seint sama kvöld. Svo það stefnir í algjört jömm. Get ekki beðið.