Ég tók stórt skref í gær eftir að reita hár mitt og skegg svo stórsá á. Sagði upp fjarkennslunni í VMA og kyssti þar með nokkra þúsundkalla bless. Eða Danmerkurferð eða eitthvað. Brann út fyrir svo löööngu síðan, ótrúlegt en satt þá er nefnilega skemmtilegra að vera með nemendurna fyrir framan sig en í tölvusambandi! En þrjóskaðist sumsé við, hugsandi bara um peninga. Nú er hins vegar tvennt. Annars vegar sé ég fram á að valið standi um seðla eða geðheilsu. Ég er búin að sinna fjarkennslunni fimm kvöld vikunnar á kostnað annars, gönguferða með Kristínu, bókalesturs, samveru við eiginmanninn … og finnst nóg komið (og nefnum ekki að þetta er svo …. að ég þarf að éta nammi á hverju kvöldi til að hafa einhverja huggun). Hins vegar eru stjórnendur VMA á þeirri skoðun að fjarkennsla verði auðveldari með hverju ári og hverjum nemanda. Þeir vilja því semja um 25% launalækkun svo þeir þurfi ekki að borga þessi ósköp fyrir eitthvað sem er hvort eð er meira og minna sjálfvirkt. Sem sagt, ég sendi bréf í gær og bað kennslustjóra um að leita að öðrum. En er samt á hliðarlínunni ef enginn fæst í starfið. Og þó að launin mín lækki ósköp á meðan lánin mín fara hina leiðina þá líður mér alveg æðislega vel. Kannski ekki í febrúar með jólavísa og enga fjarkennslu en den tid den sorg.
Var annars í borginni. Til að leita að spariyfirhöfn á dótturina meðal annars. Það var mislukkuð ferð. Eina spariflíkin sem ég fann, var í Benetton, sem einnig er á Ak, og það sem meira er, þar var 20% afsláttur. Svo ég sendi útsendara á Glerártorg og keypti sallafína kápu á dótturina. Dýra. En hún er einkabarn :). Sú stutta á svo von á jólakjól frá Svíþjóð á næstu dögum og bíður í ofvæni.
Ég náði að spila og hitta fólk. Ekkert marga, mest svona seimóld seimóld. Sem er gott og blessað. En sumir voru í útlöndum, aðrir á fæðingardeildinni og ég kunni ekki við að ryðjast inn svona á þriðja degi, enn aðrir alveg glænýfluttir (líklega) í nýtt húsnæði og ég kunni heldur ekki við að ryðjast þangað inn. Svo það voru bara bræður okkar hjóna og frúr sem nutu návistar okkar. Snilldarferð.