Skólinn hefur verið undirlagður alla vikuna af leynivinamakki og það hefur heldur betur sett skemmtilegan blæ á kennarastofuna. Allt tal um krísur út og inn með grunsemdir og gleði. Ég átti frábæran leynivin sem náði að leika á mig. Fyrst fékk ég súkkulaðidagatal sem ég borða úr og rifja upp æskuminningar í leiðinni. Síðan fékk ég piparkökur og súkkulaði. Þetta fannst mér kvenlegar gjafir og bréfin sem fylgdu með voru klárlega skrifuð af kvenmanni. Á miðvikudag snérist það svo við. Ég fékk bjórflösku og sólgleraugu, með orðsendingu um að ég væri föl og stressuð – skrifuð af karlmanni – og reyndar teikning með af naktri konu á sólarströnd. Þá fór ég að einbeita mér að því að gruna karlkennarana. Í gær kom flaska af freyðivíni, aftur með karlmannsbréfi og ég reyndi að þrengja hringinn um karlkennarana. En í frímínútum í dag kom Dúna íþróttakennari færandi hendi með ostakörfu. Needless to say þá komust íþróttakennarar ekki á blað yfir grunaða, slík var óhollustan….
Ég átti aftur á móti Siggu Steinbjörns að vini. Ég sendi henni ýmislegt smálegt sem ég hefði kæst yfir. Baðkúlu og krem, súkkulaði og jólaöl, servíettur og ljóð eftir Ingibjörgu Haralds og endaði á heimatilbúnu blúndunum mínum. Ég veit ekki hvort hana grunaði mig. Ég gaf lítið færi á mér, sendi alltaf tölvuprentuð bréf með en hugsanlega hef ég horft á hana full sakleysislega síðustu daga. Á morgun erum við svo að fara á jólahlaðborð svo vinnan er skemmtileg út í eitt þessa dagana. Ég tel samt niður hvað ég á eftir marga daga í kennslu þessa önnina. Þeir eru 12, þar af 10 fyrir jólafrí.
Í kvöld er LC með jólagleði, á morgun er laufabrauð í Akurgerði, á sunnudaginn er litla Strympið að spila á Glerártorgi. Það er í nógu að snúast. Ég hef ekkert gert í jólastússi, nema baka blúndurnar en það er ekki komið svo mikið sem hálft jólaljós upp. Aðallega vegna þess að ég nenni ekki að leita að seríunum. Strumpan er reyndar búin að fá jólafötin sín hátt og lágt svo það er þó nokkuð. Maður gæti meira að segja farið að taka mynd í kortið…