Mánaðarskipt færslusafn fyrir: janúar 2009

Smá andrými

Þá eru dúlludagarnir mínir upprunnir. Með langa „to-do“ listanum mínum. Byrjaði í dag á því að skoða hvaða dvd diska ég á með dönskum myndum fyrir væntanlegan kvikmyndaáfanga. Þær eru um það bil 50, ég er ekki viss um að ég muni allar sem eru í láni hér og þar. Enn hlakka ég til að fara að kenna danskar myndir en það verður auðvitað að ráðast hversu áhugasamir nemendurnir verða. Sögurnar úr franska kvikmyndaáfanganum voru ekki fagrar og það dró aðeins úr gleði minni. En ég reyni að halda í bjartsýnina…

Ég átti góða helgi. Fór tvær ferðir í Hólabrautinni áfallalaust. Meira varð ekki úr því þar sem unginn var athyglisþurfi. Sú stutta bíður í ofvæni eftir að teljast stólalyftuhæf svo maður verður að herða sig í að fara meira með hana og jafnvel skrá hana á annað námskeið. Hún varð reyndar fyrir því óláni að klemma sig á bílhurðinni á laugardag. Gráðugi grísinn var að fara í Supermarket til að kaupa nammi og var lögð af stað inn í búð en mundi þá að hún átt líka nammi í bílnum sem var auðvitað upplagt at taka með. Og náði þá að loka hurðinni á vísifingurinn svo að það þurfti að opna til að losa. Það varð náttúrulega allt vitlaust og brunað heim til að huga að fingrinum. Nöglin brotnaði alveg þvert mjög neðarlega og mun detta af. Puttinn nánast svartur af mari og frekar ljótur. Enda hefur maður óspart nýtt sér meiðslin og fær fulla þjónustu við hitt og þetta. Hún heimtaði samt að fara á skíði á sunnudag en entist ekki alveg í tvo tíma. Kalla hana samt góða.

Við hjónin fórum svo í leikhús á laugardagskvöld. Ég er þekkt fyrir að klúðra einhverju í hvert sinn en marg skoðaði tímasetningar og miða til að sannreyna að allt væri rétt. Það runnu hins vegar á okkur tvær grímur þegar við komum að Samkomuhúsinu og þar var ekki hræða. Fórum hikandi inn og þá hafði ég ruglast á húsum. Það var hins vegar auðleyst og við löbbuðum í hitt húsið … þetta er svo einfalt þegar maður býr á Ak. Við sáum „Falið fylgi“, það var þokkalegt, mun meira drama en ég bjóst við. Guðmundur Ólafsson var ansi hreint góður.

Annars var Strumpan í heimsókn í Brekkuskóla á föstudaginn. Svo ég vitni í hennar eigin orð, þá var það „alveg geðveikt“. Ég held að það hafi ekki verið síst vistunin og fullt af spennandi dóti sem höfðaði til hennar en hún sagði að það væri gott að hún væri ekki byrjuð, því það var sko pasta í hádegismatinn!

Þetta er allt að koma

Prófayfirferð er langt á veg komin, fyrstu umferð lokið og hefur farið vel fram. Ég lifði af allar logbækur en það er ekki útséð með hvort ég lifi af allt prófakaffið. Spurning hvort maður geti nokkuð endalaust á sig blómum bætt? Ég er þó með fögur plön í gangi um gönguferðir að kvöldlagi og vona að þær komist á koppinn fyrr en síðar. Svo er aldrei að vita nema ég bregði mér á skíði eftir að 25 ára útbúnaðurinn var endurnýjaður og maður getur farið að láta sjá sig. Þarf á því að halda að fólk dáist að skíðagræjunum og taki þar af leiðandi ekki eftir skíðatöktunum en þeir eru væntanlega býsna rykfallnir eftir langt hlé. Strumpan er orðin skíðakona, fór á námskeið um síðustu helgi. Fyrri dagurinn var svona lælæ, sérstaklega fór hún í kerfi af því að foreldrarnir yfirgáfu svæðið svo ég lofaði að standa yfir henni seinni daginn og þá small allt saman og hún fór að skíða eins og hún hefði ekki gert annað. Að minnsta kosti fljótari að ná tökum á þessu en ég í gamla daga – en hún er náttúrulega ekki í gúmmístígvélunum sínum á tréskíðum 🙂 . Hún fer aftur á námskeið um helgina og aldrei að vita nema ég skelli mér með, við getum þá rennt okkur saman í Hólabrautinni, hún verður sjálfsagt uppfærð þangað af töfrateppinu. Henni blöskraði svolítið þegar ég spurði hvort hún vildi fara á námskeið, finnst held ég dagskráin alveg næg, en róaðist þegar ég sagði að þetta væru bara fjögur skipti. Og svo spillir ekki fyrir hvað maður er töff með skíðagleraugun. Hún er öll að sættast við skautana aftur líka, það voru foreldrarnir sem hugsuðu um æfingagjöldin sem píndu hana á æfingar um tíma. Samt býst ég við að þeir detti út fyrst af öllu. Það er gaman að fylgjast með henni í íþróttum því hún hefur svo sannarlega ekki þessa frægu íþróttagreind. Algjör meðalmanneskja í flest öllu en þokkalegust í sundi og svo er hún auðvitað býsna liðug. En genin sem henni hafa verið gefin eru greinilega meira í öðru…

Nýtt ár

Gleðilegt ár, fjölskylda og vinir. Enginn árspistill héðan held ég (nema ég fái fjölda áskorana 😉 ). Jólafríið sigið verulega á seinni hlutann og hefur ekki staðið alveg undir væntingum. Hér hafa herjað ógeðslegar magakveisur, stráfellt nær alla tengdafjölskylduna, aðeins einn og einn kemst óskaddaður frá. Svo það hefur verið minna nammi, vín og almennt sukk en til stóð. Ég hef þó náð að lesa smá. Kláraði ýmsar bækur sem hafa verið mislengi í gangi, hvað lengst síðan í september en las frá upphafi til enda einnig Dimmar rósir Ólafs Gunnarssonar og Myrká Arnalds. Hvoru tveggja ágæt afþreying. Þessara jóla verður reyndar líka minnst vegna þess að Sóley fékk nokkuð margar bækur í jólagjöf líka og er búin að lesa mikið sjálf uppi í rúmi. Er að verða alvöru jólabókaormur (hér sá skrípið hvað ég skrifaði og sagðist vera ORÐINN alvöru jólabókaormur).

Í gær tókum við því frekar rólega, vorum bara þrjú heima. Höfðum mat svona að dönskum sið, rækjukokteil, önd og appelsínufrómas. Ég var frekar róleg í átinu, enn að jafna mig í  maganum. Kíktum í Skólastíg til að mingla örlítið, Ögmund höfum við til að mynda ekki séð í hálft ár eða svo. Horfðum svo á Skaupið þrjú, Sóley á þessum aldri að vera nógu gömul til að horfa án þess að vera svo gömul að skilja eitthvað. Síðan horfðum við á bombur í boði grannanna. Þeir skjóta upp hver öðrum meira. Ekki ónýtt að búa í kringum ríkt fólk þegar maður tímir alls ekki að splæsa sjálfur. Ármann bjargaði reyndar áramótum dóttur okkar og gaf henni pakka af blysum sem hún fílaði alveg. Annars óttast ég að hún muni hafa ör á sálinni og verða flugeldafrík þegar hún eldist, fyrst að foreldrarnir neita henni um þennan sjálfsagða rétt að skjóta upp. Nýársdagur byrjar svo vel, með amerískum pönnukökum í morgunmat. Getur ekki byrjað betur. Svo ætla ég að hlusta á Happy new year nokkrum sinnum í dag. Náðum nokkrum skiptum í gærkvöld (fyrir skaup 🙂 ). Síðan bíður vinnan sem þarf að vinna áður en vinnan byrjar. Skemmtileg helgi framundan og síðan ofurtörn. Jei.