Þetta er allt að koma

Prófayfirferð er langt á veg komin, fyrstu umferð lokið og hefur farið vel fram. Ég lifði af allar logbækur en það er ekki útséð með hvort ég lifi af allt prófakaffið. Spurning hvort maður geti nokkuð endalaust á sig blómum bætt? Ég er þó með fögur plön í gangi um gönguferðir að kvöldlagi og vona að þær komist á koppinn fyrr en síðar. Svo er aldrei að vita nema ég bregði mér á skíði eftir að 25 ára útbúnaðurinn var endurnýjaður og maður getur farið að láta sjá sig. Þarf á því að halda að fólk dáist að skíðagræjunum og taki þar af leiðandi ekki eftir skíðatöktunum en þeir eru væntanlega býsna rykfallnir eftir langt hlé. Strumpan er orðin skíðakona, fór á námskeið um síðustu helgi. Fyrri dagurinn var svona lælæ, sérstaklega fór hún í kerfi af því að foreldrarnir yfirgáfu svæðið svo ég lofaði að standa yfir henni seinni daginn og þá small allt saman og hún fór að skíða eins og hún hefði ekki gert annað. Að minnsta kosti fljótari að ná tökum á þessu en ég í gamla daga – en hún er náttúrulega ekki í gúmmístígvélunum sínum á tréskíðum 🙂 . Hún fer aftur á námskeið um helgina og aldrei að vita nema ég skelli mér með, við getum þá rennt okkur saman í Hólabrautinni, hún verður sjálfsagt uppfærð þangað af töfrateppinu. Henni blöskraði svolítið þegar ég spurði hvort hún vildi fara á námskeið, finnst held ég dagskráin alveg næg, en róaðist þegar ég sagði að þetta væru bara fjögur skipti. Og svo spillir ekki fyrir hvað maður er töff með skíðagleraugun. Hún er öll að sættast við skautana aftur líka, það voru foreldrarnir sem hugsuðu um æfingagjöldin sem píndu hana á æfingar um tíma. Samt býst ég við að þeir detti út fyrst af öllu. Það er gaman að fylgjast með henni í íþróttum því hún hefur svo sannarlega ekki þessa frægu íþróttagreind. Algjör meðalmanneskja í flest öllu en þokkalegust í sundi og svo er hún auðvitað býsna liðug. En genin sem henni hafa verið gefin eru greinilega meira í öðru…