Þetta mánaðarlega

Nú er annað hvort að lýsa yfir sigri Facebook á blogginu og lýsa yfir endanlegum bloggdauða eða hysja upp um sig og fara að skrifa aðeins oftar. Í ljósi þess að þetta er aðeins meira prívat (ótrúlegt en satt þá held ég að þeir sem álpast hingað inn hafi þá áhuga á því hvort mér er illt í maganum eftir páskaeggjaát eða ekki) og auk þess hægt að gera grein fyrir viðburðaríku lífi í aðeins lengra máli, þá ætla ég að halda órauð áfram.

Af páskafríinu góða er þá helst að frétta að ég átti náin samskipti við sófann og rúmið af þeirri ástæðu einni að ég eyddi mestum tíma í lestur. Engin útivist og íþróttir þetta árið, fyrst og fremst vegna þess að Strumpan er skítkvefuð og þar af leiðandi varla farandi í sund eða á skíði. Vissulega þarf maður að ná eins og einni skíðaferð til viðbótar áður en snjóa leysir og það hefst vonandi. Af lestrinum er það að frétta að ég las fyrst og fremst danskar bækur, kláraði loks loks loks Kongemordet, en á einmitt von á síðustu bókinni í þríleiknum á næstu dögum (á uppsprengdu gengi). Einnig krimma og unglingabækur svona í leit að góðu námsefni. Ég las líka á ensku, bæði eina eftir Sophie Kinsell, sem skrifaði kaupalkaseríuna, sem mér fannst ágæt, og þessi svo sem líka og svo nýjustu í Scotland Street seríunni, The World according to Bertie, sem var auðvitað frábær. Eina bókin sem ég las á íslensku var Karitas án titils, það var reyndar endurlestur, fyrir leshringinn sem var í gær. Það hafði hvort sem er staðið til vegna þess að ég á enn eftir Óreiðu á striga. Nú dauðlangar mig að lesa hana, helst strax.

Páskaeggið rann ágætlega niður, þó hefur það ekki klárast enn, sem er auðvitað til skammar. Það var óvenju stórt reyndar þetta árið, Mummi færði mér Draumaegg, þegar mér hafði mistekist að kaupa það sjálf, af því að ég var svo sein að framkvæma.

Nú er alvaran upp runnin, kennsla hafin og eina huggun mín sú að þetta er bara þriggja daga vika og næstu tvær bara fjögurra daga. Gott að þurfa ekki að byrja á fullu blasti.