Hver stórviðburðurinn…

… rekur annan þessa dagana. Margt snýst um Strumpuna, við fórum í sveitaferð með leikskólanum og áttum þar góða stund. Strumpa fór að sjálfsögðu á hestbak, við mikla gleði enda þungt haldin af hestaveikinni. Ég fékk að halda á lambi 🙂 , reif nánast eitt úr fanginu á Sóleyju af því að það var svo oggulítið og sætt að það var engin leið að standast það. Við fórum svo í fjárhúsin hjá langömmu þar sem engin grið voru gerð, ef lömbin voguðu sér upp í garðana voru þau hundelt og helst gripin í fangið og varla hægt að ná dömunni heim aftur. Í síðustu viku var svo bæði óvissuferð fyrir „útskriftarnemendur“ leikskólans, þar sem farið var í Kjarnaskóg og síðan útskriftin sjálf þar sem Strumpa tróð upp fyrir samnemendur og foreldra. Ég gat ekki annað en glaðst yfir því að eiga barn sem er svo algjörlega laust við feimni þegar sum börnin gátu ekki komið og tekið við útskriftarskírteininu fyrir feimni. Aðrir tónleikar voru svo í Tónlistarskólanum í gær þar sem hún spilaði í hópspili fiðlunemenda.

Á prívatvígstöðvunum er þá helst að frétta að ég fór loks í „19“ vikna sónar á mánudaginn var. Útreikningar sýndu að farþeginn hafði lokið af 20 vikum og 6 dögum og áætlaður komutími 290909. Allt leit vel út, líf og fjör á Læk eins og venjulega, greinilega von á öðru tápmiklu eintaki 🙂 . Ég lýsi eftir sam-óléttum á Akureyri, ég þekki óvenju margar í sömu sporum en allar í fjarlægð. Það er reglulega legið yfir nöfnum, stóra systir kemur auðvitað með prýðilegar uppástungur (að eigin mati) en lítið miðar. Sennilega þarf að fara í stórar aðgerðir til að leysa málið.

Nú, við hjónin höfum öðlast nýtt líf sem moldvörpur. Garðurinn hefur fengið meiri athygli þetta vorið en stundum áður og stefnir í stórframkvæmdir. Ný hurð út í garð í pöntun og efni í pall komið á lóðina. Ég sef með krosslagða fingur og tær og bið um sól og sumaryl óslitið (nema kannski í lok júní, þá beinast óskir mínar að Suður-Svíþjóð og Norður-Danmörku) svo ég geti flutt á pallinn þegar hann verður kominn upp.

Á morgun er svo reunion, ég hef ákveðið að vinna bug á Gagga-fælninni og skráði mig til leiks. Mæti með hóflegar væntingar, veit þó af reynslu að sumir hafa þroskast á 20 árum en óvíst er að það gildi um alla.