Setið á pallinum

Sumarið leit aðeins við í gær. Það kom sér vel, því dekkið er komið á pallinn og ég notaði auðvitað tækifærið og fór út að lesa. Komst reyndar fljótt að því að mig vantaði almennilegt húsgagn, þar sem væri gert ráð fyrir því að gera með lappir upp í loft. Því var auðvitað reddað síðdegis, fór í Rúmfatalagerinn og keypti stól með framlengingu fyrir fætur og mjúka sessu undir bossann og verður þetta húsgagn eingöngu í boði fyrir óléttar konur þetta sumarið.

Strumpunni var bjargað frá leiðindadegi í selskap foreldranna. Afinn og amman drifu hana með í bæinn þar sem hún fór á kaffihús eins og fín frú og heilsaði svo upp á Ljótu hálfvitana, illa sátt þegar hún var að segja frá … „það eru ekki margir krakkar sem fá að hitta frægt fólk“. Ekki spillti fyrir að heyra lag með félögunum í útvarpinu. Strumpan hefur nefnilega átt afar bágt síðustu dagana, leikfélagar af skornum skammti, allir á einhverjum þvælingi og það er sannarlega ekki gaman að eyða tímanum með foreldrunum, sem ýmist fara yfir próf eða smíða pall.

Annars flýgur tíminn og skrýtið að hugsa til þess að eftir tvær vikur verði maður í Danmörku, eða kannski meira í Svíþjóð. Allt að verða rólegra í vinnunni, vissulega eftir sjúkra- og endurtökupróf, auk skemmtilegheita eins og funda og skýrslna en kvöld- og helgarvinna búin. Sóley er mjög beggja blands enn með leikskólann, það er greinilega ekki tóm gleði að hætta. Hún sofnaði seint og illa í gær eftir óreglu helgarinnar, náði þó að gala í mig undir svefn að það væri tækjalausi dagurinn á morgun. Þetta kom svo aftur á dagskrá í morgun og vakti litla gleði þegar móðirin sagðist mundu keyra hana í leikskólann þrátt fyrir þetta. Á leiðinni þangað mættum við ýmsum foreldrum að koma frá því að keyra börnin svo ég benti henni á að flestir væru nú greinilega að keyra þrátt fyrir tækjalausa daginn. Þá kom upp úr dúrnum að þetta var tækjalausi dagurinn hjá henni og engum öðrum og hafði hún fengið hugmyndina frá Fíusól. Ég bað hana vinsamlegast að hafa foreldrana með í ráðum næst þegar hún ákvæði tækjalausan dag, þá væri kannski hægt að finna dag þar sem ekki þyrfti að drösla tösku og stígvélum í leikskólann og þar af leiðandi auðveldara í framkvæmd.