Mánaðarskipt færslusafn fyrir: júlí 2009

Kaupstaðarferðin

Ekki er ég ánægð með truflun þessa stundina, var búin að rita góða ferðasögu eftir helgina en var rænd henni undir lokin og finn ekkert hér. Urrrr. Kannski verða lesendur fegnir, þeir fá stuttu ferðasöguna því ég nenni varla að skrifa annað eins aftur.

Fimmtudagsmorgunn – 16. júlí, sms frá Óla, litli frændi með áætlaðan komutíma þann daginn. Ferð til Reykjavíkur ákveðin næsta dag, allir orðnir úthvíldir og fínir þá. Föstudagsmorgunn – 17. júlí, enginn frændi mættur á svæðið en við leggjum af stað. Stoppum eins og venjulega á bláa kaffihúsinu á Blönduósi, fáum skrýtinn mat. Sjávarréttasúpu, sem inniheldur nokkrar rækjur, svona til að standa undir nafni. Brún á litinn. Minnir helst á fisk í brúnni sósu. Strumpan með franska súkkulaðiköku, svo þurra að það er varla hægt að hluta hana í sundur og þó við fáum okkur öll þrjú af henni tekst ekki að ljúka við heila sneið. Í Bifröst berst sms, litli frændi er mættur á svæðið. Í borginni förum við fyrst í kaupstaðarleik og skoðum barnabílstóla. Líst vel á einn en ákveðum að skoða víðar. Eftir það er ákveðið að líta á sjúkrahúsið til að skoða litlu fjölskylduna sem ber sig nógu vel til að geta tekið á móti gestum. Sérstaklega ef þeir koma færandi hendi með mat. Litli frændi er ósköp státinn og föðursystir fær að halda á honum í svolitla stund. Ekki er heimsóknin mjög löng til að ofreyna ekki litlu fjölskylduna og haldið í Árbæinn til gistingar.

Laugardagsmorgunn – 18. júlí. Morgunmatur hjá Bakarameistaranum, fleiri stólar skoðaðir. Dýrari án þess að hafa eitthvað umfram. Fyrsta alltaf best. Síðan er haldið í Smáralind, þar eru mæðgur geymdar á meðan pabbinn fer í hobbýferð. Móðirin þvælist um útsölur, tekst að finna barnaföt af ýmsum stærðum og gerðum. Pabbinn snýr aftur, Strumpan fær að velja sér skólatösku. Síðan halda foreldrarnir í taubleiukynningu og fá góða konu til að leiða þau um völundarhúsið. Kaupa smá grunn til að þreifa sig áfram með. Áfram er haldið í bílstólaleiðangur og sá fyrsti keyptur. Hann hefur ýmsa kosti, í fyrsta lagi óvæntan afslátt vegna rétts tryggingafélags, í öðru lagi er hann með “base” sem sparar manni öryggisbeltahandtökin og svo síðast en ekki síst, hann passar á kerruna sem stóra systir átti á sínum tíma. Hvað sumir framleiðendur eru elskulegir að breyta engu stórvægilegu á sex árum. Eftir þessi góðu kaup er haldið í aðra heimsókn til litlu fjölskyldunnar. Þar er nú stoppað heldur lengur en daginn áður, svo stóru frænku þykir nóg um. Því þó litli frændi sé ósköp krúttlegur er ekki hægt að dást að honum mjög lengi í einu. Hann sefur meira að segja allan tímann. Að heimsókn lokinni er aftur haldið heim í Árbæ eftir viðkomu á hamborgarastað.

Sunnudagsmorgunn – 19. júlí hefst á sundferð í Árbæjarlaug. Síðan eru gestgjafarnir, sem loks voru mættir heim, teymdir á Vegamót í brunch. Þar hittum við óvænt Ásdísi og síðan Helga og Kristleif en planað hittum við Palla og Roland og áttum ágæta stund með þeim. Eftir átið er litið inn til Helga og Ásdísar, Kristleifur sefur eftir útstáelsi kvöldið áður. Frá Helga er haldið í Loftkastalann að sjá Grease. Húsið sökkar en sýningin er skemmtileg, ég fæ góða nostalgíu, auk þess að hafa gaman af Bjarti leika Danny. Bjartur rekur einmitt augun í Sigga þegar við erum á leið út svo Strumpan fær að heilsa upp á hann, sér hann varla fyrir stjörnunum í augunum. Eftir viðkomu í búðinni er farið í heimsókn í Grýtubakkann, litla fjölskyldan komin heim. Þar fáum við loks að vita hvað litli frændi á að heita, ásamt ýmsum ættmennum í símanum. Hann fær nafnið Gunnsteinn Þór, sterkt nafn fyrir piltinn. Um kvöldið borðum við saman en ég sting svo af og lít á aðra litla sendingu, dóttur Önnu Lilju og Benna sem er ríflega tveggja vikna. Hún er lítil stúfa, nafnlaus enn sem komið er og sefur megnið af kvöldinu en er rifin upp áður en ég fer. Státar af spékoppum.

Mánudagsmorgunn – 20. júlí. Lagt af stað heim. Tíðindalítil heimferð, fyrst stoppað í Geirabakaríi í Borgarnesi, sem er óneitanlega skemmtilegri stoppustöð en Hyrnan, síðan stoppað í Ljóni norðursins á Blönduósi. Það er reyndar hið undarlegasta kaffihús, í gömlu húsi, vestan við Blöndu. Þar er hægt að velja á milli kleinu eða marmaraköku, auk kaffis. Vekur litla lukku og enga löngun til að stoppa þar aftur. Komum heim um kaffileytið, Strumpan er strax kölluð út í heimsókn svo við leggjumst líka í heimsóknir.

Vikan síðan verið tíðindalítil, þó tvö afmæli í fyrradag með tilheyrandi áti og stefnir í smá sumarbústaðaferð um helgina, líklega bara eina nótt samt. Ég er í lestrarátaki, ákvað að hætta að treysta á að finna eitthvað spennandi á bókasafninu (fann reyndar “Rauðbrysting” sama dag, hlakka til að lesa meira um Harry Hole) og pantaði langan lista af bókum sem ég hef ætlað mér að lesa. Er nú þegar búin að fá “Óheillakrákuna” í hús og hef varla sleppt henni. Meira af lestri síðar.

Ferðasagan seint og illa

Þá erum við búin að vera heima í 12 daga eftir ferðina góðu og ekki seinna vænna en að setja eitthvað á blað ef það á annað borð að koma. Það var mánudaginn 22. júní sem við lögðum íann. Allt eins og best var á kosið, Prinsi hafði snúið aftur daginn áður, horaður og hvumpinn en að öðru leyti í lagi. Svolítið sorglegt að yfirgefa hann strax en Aníta kattapassari fékk fyrirmæli um algert dekur á meðan við værum í burtu. Beina flugið héðan, alveg dásamleg uppfinning og vel þessara þúsundkalla virði sem þurfti að borga miðað við flug frá KEF. Áttum þægilegustu flugferð, Strumpan aldrei verið svona þæg, annars vegar hafði hún fengið að velja sér ógurlega flott nammi í flugsjoppunni, pela þar sem „túttan“ var sleikjanleg og síðan var duft innan í. Hins vegar var i-podinn besti vinurinn, ekki síst þegar hún komst að því að hægt væri að gefa lögunum stjörnur enda fór drjúgur tími í það, einnig í að láta foreldrana gefa lögum með Nýdönsk og Metallicu einkunn. Eftir lendingu í Køben var brunað í Malmö lestina og þaðan inn á hótel, allt afar þægilegt og kunnuglegt enda sama prógramm og í ágúst síðastliðinn. Næsta dag sóttum við bílinn og Mumma til mikillar gleði var Volvo S40 uppfærður í Volvo XC70, mikla kerru sem ég hafði lítinn áhuga á að keyra, sannfærð um að ég myndi aldrei gera mér grein fyrir upphafi og endi á bílnum. En það var ljómandi þægilegt að sitja í honum. Fyrsti áfangastaður var Skåne hobby í bæ sem var á stærð við Svalbarðseyri. Þökk sé GPS komumst við vandræðalaust á áfangastað. Mummi fór í búðina á meðan við Sóley vöppuðum um, ég hóf sænskunýtinguna á því að fara inn í Landmannsbutik og biðja um glas þegar ég var í raun að biðja um ís. Eftir þetta smábæjarrölt lögðum við af stað í bústað með viðkomu í matvörubúð og hinni ómissandi Eko. Restin af þriðjudeginum fór í rólegheit í bústað. Á miðvikudeginum var haldið af stað í Öland djur- og nöjespark. Þangað er tveggja tíma akstur, á leiðinni sáum við smá sundlaugargarð sem Sóleyju fannst afar freistandi og gott að vita af honum. Við eyddum síðan einum fjórum tímum í garðinum, þar voru bæði ýmis dýr sem gaman var að sjá og sömuleiðis nokkur tæki, hæfilega spennandi fyrir 6 ára. Ég mátti lítið prófa af tækjunum, ævinlega voru skilti þar sem óléttar konur voru varaðar við því að fara í, ég missti reyndar af einni slíkri viðvörun og fór í draugalest með Sóleyju, þar sem hún æpti reglulega upp á milli þess sem ég geispaði, svona nokkurn veginn. Farþeganum varð að minnsta kosti ekki meint af draugaferðinni. Eftir að garðdvölinni lauk hittum við Önnu Steinu og Martin sem voru búin að aka drjúgan part af Svíþjóð til að koma og hitta okkur. Við ákváðum að keyra ögn um Öland áður en við færum í bústað og byrjuðum á að fara til Borgholm sem er höfuðstaður eyjarinnar. Þar fórum við á útimarkað og á kaffihús og ákváðum að líta við á Borgholm slott og Solliden sem er sumarhöll sænsku konungsfjölskyldunnar. Borgholm slott er einhver gamall kastali sem við dáðumst bara að úr fjarlægð enda er hann bara hálf uppistandandi. Við ætluðum hins vegar að labba að Solliden en snérum frá þegar við komumst að því að Carl Gustav ætlaði að græða á okkur og rukkaði fyrir aðgang að hallargarðinum. Svo ekki sáum við neitt þar. Á bakaleiðinni stoppuðum við til að borða í Karlskrona, enda hátíðisdagur, við hjónakornin áttum 9 ára brúðkaupsafmæli. Það var reglulega indælt.

Á fimmtudeginum var ákveðið að fara í Lund. Þar fylgdum við Mumma á fornar slóðir og löbbuðum um miðbæinn með viðkomu í dómkirkjunni. Á föstudeginum fóru Anna og Martin aftur og við héldum í kaupstað svo ég fengi eitthvað fyrir minn HogM snúð. Eyddum því drjúgum parti af deginum í Kristianstad og konunni létti talsvert, þó eitthvað sé það einkennileg búðarferð sem snýst lítið um hana sjálfa. Á laugardeginum var mál að yfirgefa bústað. Mummi átti eftir að heimsækja tvær hobbýbúðir svo dagurinn var tekinn snemma, fyrst komið við í Burlöv center í Malmö og gátu hjónin bæði náð snöggri búðarheimsókn, en síðan var haldið í miðbæ Malmö og Mummi skaust til að skoða módeldót. Síðan hófst aksturinn mikli. Yfir Eyrarsundsbrúna, upp á Sjællands Odde og yfir til Ebeltoft með ferju (sem er afskaplega indæll ferðamáti). Þaðan upp til Skagen með klukkutíma töf á hraðbrautinni vegna vegavinnu. Komin á áfangastað eftir ellefu tíma ferðalag (þó ekki akstur…) um hálf átta. Þar beið okkar heilmikil grillveisla.

Á sunnudeginum fórum við fyrst á Tordenskjolds-hátíð í Frederikshavn. Stór útgáfa af miðaldadögunum á Gásum og skemmtilegt að ráfa um höfnina. Eftir það var förinni heitið á Pálmaströndina, Sóley náði að sulla vel í sjónum og Mummi með en ég lá og bakaðist á meðan. Um kvöldið gerðust þau stórtíðindi að fyrsta framtönnin í efri góm fór og því spennandi að sjá hvað tannálfurinn myndi taka til bragðs. Hann lét ekki fjarlægðir stoppa sig, kannski helst rugla sig því gullpeningurinn sem var kominn að morgni var talsvert verðmeiri en það sem áður hafði sést á Íslandi.  Þennan dag löbbuðum við um miðbæ Skagen, fórum á Skagen Museum (eins og við gerðum reyndar í síðustu heimsókn), með Sóleyju ögn þolinmóðari en fyrir tveimur árum. Eftir hádegið fóru við í siglingu með Skagens-Húna í lítilli útgáfu, þá var siglt frá höfninni og út að Grenen og gaman að sjá bæinn og þennan nyrsta odda Danmerkur frá nýju sjónarhorni. Í lok dags kom í ljós að Sóley var orðin lasin, fékk háan hita og lagðist í bælið og þriðjudagurinn fór fyrir lítið þar sem hún lá fyrir með heiftarlega magapest og Mummi henni til samlætis hálf slappur. Þannig fór síðasti dagurinn okkar á Skagen í bili.

Á miðvikudagsmorgun var Sóley sem betur fer risin úr bæli enda förinni heitið í Legoland. Þangað eru ríflega tveir og hálfur tími í bíl og við komin þangað um hádegisbil. Byrjuðum á að næra okkur og svo réð Sóley ferðinni. Eins og á Öland var ég hálfgert súkkat, mátti fátt eitt prófa svo ég var mest á hliðarlínunni en Mummi fórnaði sér í tækin með dótturinni. Hún var auðvitað himinsæl en þó var tvennt sem toppaði daginn. Annars vegar mátti fröken kaupa sér ofur sleikjó, enda hafði hún verið leyst út með dönskum pening á Skagen, hins vegar fékk hún bleika snúru í hárið sem hún var alsæl með. Rétt fyrir lokun létum við gott heita og brunuðum yfir á Sjáland þar sem við gistum.

Á fimmtudeginum byrjuðum við á að skila bílnum í Malmö og skutla töskunum inn á góða hótelið okkar og tókum svo lestina yfir. Ráfuðum fyrst um í miðbænum þar sem ég náði að bæta aðeins í bóka- og dvd safnið. Fórum í kanalsiglingu eftir hádegið í steikjandi hita og þaðan í gönguferð að Amalienborg með innliti í Marmorkirken. Lífverðirnir skörtuðu einhverjum sumarhöttum sem ég man ekki eftir að hafa séð áður. Þegar leið á daginn var farþeginn aðeins farinn að síga í en hafði svo sem ekki verið til neinna vandræða yfirleitt. Enduðum á að borða á Mama Rosa sem nú heitir Papa eitthvað og tókum lestina til baka. Að morgni föstudags kláruðum við pökkun og tókum lestina á Kastrup, áttum afar þægilega ferð þar um, hvorki röð í check-in né öryggisskoðuninni og rólegar stundir á meðan við biðum eftir flugi. Það eina sem skyggði örlítið á heimferðina var að flugmaðurinn virtist aðeins tapa áttum þegar hann nálgaðist Eyjafjörðinn og hringsnerist þessi ósköp á vélinni, lenti þess vegna korteri of seint á Akureyri, um leið og Fokker frá Reykjavík, sem að sjálfsögðu fékk forgang á töskur, svo töskubiðin var óvenju löng. Strumpan hafði hins vegar sofið mest alla leið.

Það sem stóð algjörlega uppi var ofurgott veður allan tímann – ég man ekki eftir svona mörgum sólskinsdögum í röð á mínum ferðalögum um Danmörku og Svíþjóð. Hitinn í Svíþjóð var þó bærilegri, þetta á bilinu 20°- 25° en hékk mest í kringum 30° í Danmörku. Eins var þetta þægilegasta ferð sem farin hefur verið með Strumpu. Tvær flugferðir og tveir langir bíladagar gengu eins og í sögu. En að sjálfsögðu var gott að snúa heim.

Það beið líka indælt veður á Akureyri, við höfðum reglulega fengið mont-sms með stöðunni á veðrinu og vorum auðvitað sannfærð um að blíðan yrði fljót að yfirgefa svæðið. Því til staðfestingar var stíf norðanátt þegar við komum úr vélinni en það var þá bara millibilsástand og heil vika leið í sól og blíðu. Við höfum tekið palla- og garðastundir og gengið aðeins á to-do lista sumarsins en allt með hægð. Enn bíður hurð út á pall með öllu því róti sem henni fylgir og megnið af grindverkinu við pallinn, málarinn hefur til að mynda alls ekki staðið sig sem skyldi. Við erum búin að fá Dani í gistingu og æfa okkur meira í dönskunni, fórum á Ólafsfjörð á sunnudag og heilsuðum upp á ættingja þar en bíðum annars í startholunum að fara suður þegar fjölgar í fjölskyldunni. Ýmislegt hefur líka dregið úr manni síðustu daga og bar þar hæst að Anna Steinunn missti fóstur eftir 19 vikna meðgöngu. Það er einstaklega sárt að upplifa, sérstaklega þegar maður er sjálfur á kafi í krílapælingum og líka erfitt að vera fjarri. Síðustu daga hefur veðrið verið leiðinlegt og við látið útiverkin bíða og ég reyndar tekið alvöru letiköst, legið í sófanum og lesið og surfað á milli þess sem ég dorma. Því miður hef ég ekki verið að lesa nógu skemmtilegar bækur, verð held ég annað hvort að fara að panta þær bækur sem mig langar til að lesa eða fara í heimsóknir og skoða heimilisbókasöfnin. Þetta má að minnsta kosti lagast svo lestrarstundirnar séu betur heppnaðar. Á löngunarlistanum eru Viltu vinna milljarð, Kona fer til læknis og Á ég að gæta systur minnar. Kannski minnst af þessu upplífgandi en vonandi góð lesning.