Kaupstaðarferðin

Ekki er ég ánægð með truflun þessa stundina, var búin að rita góða ferðasögu eftir helgina en var rænd henni undir lokin og finn ekkert hér. Urrrr. Kannski verða lesendur fegnir, þeir fá stuttu ferðasöguna því ég nenni varla að skrifa annað eins aftur.

Fimmtudagsmorgunn – 16. júlí, sms frá Óla, litli frændi með áætlaðan komutíma þann daginn. Ferð til Reykjavíkur ákveðin næsta dag, allir orðnir úthvíldir og fínir þá. Föstudagsmorgunn – 17. júlí, enginn frændi mættur á svæðið en við leggjum af stað. Stoppum eins og venjulega á bláa kaffihúsinu á Blönduósi, fáum skrýtinn mat. Sjávarréttasúpu, sem inniheldur nokkrar rækjur, svona til að standa undir nafni. Brún á litinn. Minnir helst á fisk í brúnni sósu. Strumpan með franska súkkulaðiköku, svo þurra að það er varla hægt að hluta hana í sundur og þó við fáum okkur öll þrjú af henni tekst ekki að ljúka við heila sneið. Í Bifröst berst sms, litli frændi er mættur á svæðið. Í borginni förum við fyrst í kaupstaðarleik og skoðum barnabílstóla. Líst vel á einn en ákveðum að skoða víðar. Eftir það er ákveðið að líta á sjúkrahúsið til að skoða litlu fjölskylduna sem ber sig nógu vel til að geta tekið á móti gestum. Sérstaklega ef þeir koma færandi hendi með mat. Litli frændi er ósköp státinn og föðursystir fær að halda á honum í svolitla stund. Ekki er heimsóknin mjög löng til að ofreyna ekki litlu fjölskylduna og haldið í Árbæinn til gistingar.

Laugardagsmorgunn – 18. júlí. Morgunmatur hjá Bakarameistaranum, fleiri stólar skoðaðir. Dýrari án þess að hafa eitthvað umfram. Fyrsta alltaf best. Síðan er haldið í Smáralind, þar eru mæðgur geymdar á meðan pabbinn fer í hobbýferð. Móðirin þvælist um útsölur, tekst að finna barnaföt af ýmsum stærðum og gerðum. Pabbinn snýr aftur, Strumpan fær að velja sér skólatösku. Síðan halda foreldrarnir í taubleiukynningu og fá góða konu til að leiða þau um völundarhúsið. Kaupa smá grunn til að þreifa sig áfram með. Áfram er haldið í bílstólaleiðangur og sá fyrsti keyptur. Hann hefur ýmsa kosti, í fyrsta lagi óvæntan afslátt vegna rétts tryggingafélags, í öðru lagi er hann með “base” sem sparar manni öryggisbeltahandtökin og svo síðast en ekki síst, hann passar á kerruna sem stóra systir átti á sínum tíma. Hvað sumir framleiðendur eru elskulegir að breyta engu stórvægilegu á sex árum. Eftir þessi góðu kaup er haldið í aðra heimsókn til litlu fjölskyldunnar. Þar er nú stoppað heldur lengur en daginn áður, svo stóru frænku þykir nóg um. Því þó litli frændi sé ósköp krúttlegur er ekki hægt að dást að honum mjög lengi í einu. Hann sefur meira að segja allan tímann. Að heimsókn lokinni er aftur haldið heim í Árbæ eftir viðkomu á hamborgarastað.

Sunnudagsmorgunn – 19. júlí hefst á sundferð í Árbæjarlaug. Síðan eru gestgjafarnir, sem loks voru mættir heim, teymdir á Vegamót í brunch. Þar hittum við óvænt Ásdísi og síðan Helga og Kristleif en planað hittum við Palla og Roland og áttum ágæta stund með þeim. Eftir átið er litið inn til Helga og Ásdísar, Kristleifur sefur eftir útstáelsi kvöldið áður. Frá Helga er haldið í Loftkastalann að sjá Grease. Húsið sökkar en sýningin er skemmtileg, ég fæ góða nostalgíu, auk þess að hafa gaman af Bjarti leika Danny. Bjartur rekur einmitt augun í Sigga þegar við erum á leið út svo Strumpan fær að heilsa upp á hann, sér hann varla fyrir stjörnunum í augunum. Eftir viðkomu í búðinni er farið í heimsókn í Grýtubakkann, litla fjölskyldan komin heim. Þar fáum við loks að vita hvað litli frændi á að heita, ásamt ýmsum ættmennum í símanum. Hann fær nafnið Gunnsteinn Þór, sterkt nafn fyrir piltinn. Um kvöldið borðum við saman en ég sting svo af og lít á aðra litla sendingu, dóttur Önnu Lilju og Benna sem er ríflega tveggja vikna. Hún er lítil stúfa, nafnlaus enn sem komið er og sefur megnið af kvöldinu en er rifin upp áður en ég fer. Státar af spékoppum.

Mánudagsmorgunn – 20. júlí. Lagt af stað heim. Tíðindalítil heimferð, fyrst stoppað í Geirabakaríi í Borgarnesi, sem er óneitanlega skemmtilegri stoppustöð en Hyrnan, síðan stoppað í Ljóni norðursins á Blönduósi. Það er reyndar hið undarlegasta kaffihús, í gömlu húsi, vestan við Blöndu. Þar er hægt að velja á milli kleinu eða marmaraköku, auk kaffis. Vekur litla lukku og enga löngun til að stoppa þar aftur. Komum heim um kaffileytið, Strumpan er strax kölluð út í heimsókn svo við leggjumst líka í heimsóknir.

Vikan síðan verið tíðindalítil, þó tvö afmæli í fyrradag með tilheyrandi áti og stefnir í smá sumarbústaðaferð um helgina, líklega bara eina nótt samt. Ég er í lestrarátaki, ákvað að hætta að treysta á að finna eitthvað spennandi á bókasafninu (fann reyndar “Rauðbrysting” sama dag, hlakka til að lesa meira um Harry Hole) og pantaði langan lista af bókum sem ég hef ætlað mér að lesa. Er nú þegar búin að fá “Óheillakrákuna” í hús og hef varla sleppt henni. Meira af lestri síðar.