Þá er Skottan orðin sjö mánaða og óhætt að segja að ýmis þroskamerki hafi komið með afmælinu. Þannig er að matartímarnir hafa ekki verið nein hátíð fram að þessu eins og áður hefur verið lýst og þannig var allur mánuðurinn búinn að vera, frekar óskemmtilegur. Það tók langan tíma að gefa henni, hún opnaði ekki munninn og hryllti sig og kúgaðist yfir flestu sem henni var boðið. Í dag ákvað ég að fara svona „back to basics“, gerði þunnan hrísmjölsgraut og hvort sem það gerði gæfumuninn eða þessi nýi, hái aldur, þá opnaðist munnurinn loksins þegar skeiðin kom að. Vissulega borðaði hún ekki mikið en ansi mikill munur að þurfa ekki að bora skeiðinni inn í munninn. Ég ákvað svo að reyna enn frekar á lukkuna í kvöldmatnum og gaf henni banana/mjólkurþeyting og það rann nokkurn veginn niður líka. Engin ósköp en án mikillar dramatíkur. Síðara þroskamerki dagsins var svo svefninn. Það er nefnilega alveg ægilega erfitt að fara að sofa og ef maður er ekki þeim mun þreyttari þá kostar það heilmikil mótmæli þegar á að bæla. Í kvöld söng ég og söng í von um að hún sofnaði í fanginu á mér, það hefur nefnilega tekist síðustu kvöld. Það hafði ekkert að segja, hér var gleðin ein við völd svo ég lagði hana og dólaði aðeins inn í herbergi. Hún var klárlega ekki á leiðinni að sofna svo ég prófaði að fara fram og viti menn, eftir að dúlla sér í svolitla stund og reka bara upp eitt píp, þá sofnaði daman alveg sjálf. Ég er algjörlega að vona að þetta sé það sem koma skal, bæði í mat og svefni, því þetta er það sem hefur verið í mestu rugli. Nú bíð ég bara eftir að hún stökkvi fagnandi í fangið á öðrum en okkur þremur og þá er allt komið.
Skottan er líka komin með fleiri tennur, núna eru framtennurnar tvær að ofan að ryðjast niður. Mér sýnist, mér til ómældrar gleði, að það stefni í frekjuskarð. Þá væri það nú komið frá móðurinni og veitir ekki af að bæta í þann pott. En sú stutta á líklega langt í land að ná frænda því Gunnsteinn skartar ansi myndarlegu frekjuskarði. Og hvað er líka sætara?
Strumpan leikur líka við hvurn sinn fingur. Hún var að vísu ansi mæðuleg á þriðjudag þegar hún fattaði að það væru tvö próf næsta dag. Hún átti nefnilega að fara í fiðlupróf og það sem verra var, einnig í lestrarpróf. Ég skildi ekki áhyggjurnar yfir lestrarprófinu en við yfirheyrslur kom í ljós að það var ætlast til þess að maður sæti kyrr OG hefði hljóð. Þetta gekk nú allt þokkalega, ég var viðstödd fiðluprófið og það var voða stór stund, enda fara fiðlukrakkarnir venjulega í fyrsta prófið 9 ára.
Við vorum fyrir sunnan um helgina, ég var á LC fundi, bæði sem formaður og einnig af því að ég er að fara í landsstjórn, er orðin vefstjóri (og já, ég veit, það er óskiljanlegt að ég, þetta mikla tölvugúrú, sé í slíku embætti). Það er spennandi að takast á við þetta samt og aldrei að vita nema ég læri eitthvað nýtt í leiðinni. Annars vorum við löt í ferðinni, fórum bara í heimsókn til mága minna og svilkvenna enda svo kvefuð hjónin að við vorum vart húsum hæf. Fórum þó með Strumpu í leikhús, að sjá Fíusól. Það var svona lælæ, hitti vissulega í mark hjá þeirri sem það átti að gera og þá er auðvitað allt í sómanum. Ég fór líka með henni í húsdýragarðinn og þar varð slys, hún var bitin í fingurinn af kiðlingi (fingurinn var af einhverri ástæðu staddur í munninum á honum) svo stórsá á… Ferðirnar gengu vel, þó þurfti ég að stilla til friðar á suðurleiðinni, settist á milli þeirra systra í Hreðarvatnsskála. Á norðurleiðinni sprakk samkomulagið á Moldhaugnahálsinum og grátkórinn á fullu alla leið heim. En það er býsna vel sloppið. Skottan var samt svo fegin að komast heim, hún lét alveg eins og api, hef ekki séð annað eins. Strumpan var að hamast í henni, þær voru hvor sem önnur en Skottan þó sínu æstari, var alveg að missa sig af kæti og við mægður hlógum auðvitað eins og fífl að henni. Algjör svefngalsi.