Ekki seinna vænna

Ef ég ætla að halda áfram sama ritdugnaði og ná tveimur færslum í maí má varla bíða mikið lengur með fyrstu færslu. Nú er það helst í fréttum að ég er búin með fæðingarorlofið og alla inneign og goodwill og það allt og fer að vinna á morgun. Það eru blendnar tilfinningar því tengdu. Vissulega gaman að hitta allt góða samstarfsfólkið og njóta þeirra forréttinda að vinna með þeim en ÁN nemendanna … hihí. En Skottan er bara ósköp lítil enn og þó hún sé vissulega í öruggum höndum föður síns og ég bara í næsta húsi þá vildi ég helst af öllu vera heima lengur. Það er huggun harmi gegn að þetta er ekki langur tími. Við erum svo búin að fá staðfest dagmömmuplássið fyrir haustið, hún fer sem betur fer til sömu dagmömmu og Sóley, hennar elsku Ráðhildar. Ég var svo ákveðin að koma henni að þar að ég athugaði ekki á fleiri stöðum. Vona að Skotta verði aðeins búin að bæta „people skills“ og þetta gangi allt vel. Amman ropaði reyndar upp úr sér í dag að hún hefði verið svona mömmu- og pabbasjúk fram að fermingu, kannski er ekki von á góðu næstu árin! Svefnvenjurnar eru enn frekar vondar. Hún er alveg súr að sofna á kvöldin og það sem verra er, á það til að vakna alveg foxill eftir svona hálftíma – klukkutíma svefn. Þá er oft gargað, alveg sama hvað er gert fyrir mann. Eins eru næturnar upp og ofan. Um daginn náðist að fylla hana svo duglega af graut að hún svaf til sex, það hefur aldrei gerst áður. Næsta kvöld ætlaði ég að endurtaka leikinn en þá tókst það auðvitað ekki eins vel. Þannig að ég er enn að vakna svona tvisvar til fjórum sinnum á nóttu til að gefa henni, snuðið hefur ekkert að segja til að hugga mann.

Nú er allt á síðustu metrunum hjá Strumpu, fimleikunum lýkur með sýningu á sunnudag, fiðlan verður búin í næstu viku en sundið reyndar út maí. Nú hefst aftur íþróttapúsl næsta vetrar því daman vill halda áfram í öllu OG fara í karate eins og pabbi. Það verður laglegt að koma öllu heim og saman, fiðlukennarinn stakk meira að segja upp á að Strumpan færi í strengjahljómsveit. Hún bíður spennt eftir sumrinu, sérstaklega að komast á reiðnámskeið og helst af öllu að fá sama hest og í fyrra, ástkæran Neptúnus.

Ég kláraði mömmuleikfimina með stæl, búin að þyngjast um tvö kíló og hafði ekki bætt mig í þoli (miðað við seinna próf). Bleeeh. Ég rengi að vísu þolprófsniðurstöðurnar, finn að það hefur eitthvað gerst þar, en ég verð að viðurkenna að kílóatalan stendur. Nú tekur við óvissuástand, ég býst við að borða minna súkkulaði (minni tími til að borða you see) en veit ekki hvað tekur við í hreyfingu. Langar helst að hefja skokk aftur, það verður skoðað. Kosturinn við það er amk að maður ræður tímasetningunni sjálfur.

Ég hef staðið mig ágætlega í lestri undanfarið, las m.a. Heimkomuna eftir Björn Þorláksson, hún var ansi skondin og ekki alveg sami hrokinn í henni eins og ég hef stundum upplifað frá höfundinum. Las Kínverjann eftir Mankell en fannst hún full langdregin á köflum. Er núna að lesa Nemesis eftir Jo Nesbø, hún lofar ansi góðu. Engar stórbókmenntir hér á ferð en ágætis afþreying. Nú hlakka ég líka til að eiga sjónvarpskvöld með Kristínu, ætlum að horfa saman á Berlínaraspirnar. Er að vísu búin að horfa á seríuna en hún stóð þokkalega undir væntingum og gaman að horfa á hana í selskap.

Afmælisbörn dagsins eru þrjú, Dúddi, Siggi og Ásdís og þeim eru hér færðar hamingjuóskir … þó er alveg bókað að tveir þeir fyrstnefndu eru ekki í lesendahópnum 🙂 .