Ekkert kosningaþvaður

Ég ætla ekkert að fara að röfla um kosningar, hvorki þessar leiðinlegu (sem ég tók þátt í), né þessar sem höfða aðeins meira til mín (Eurovision) en ég tók samt ekki þátt í því ég er allt of nísk. Hér er það bara hvunndagurinn sem ratar á blað eins og venjulega. Nú er alvara lífsins í fullum gangi, ég búin að vinna í rúmar tvær vikur og hef fengið að fást við sitt af hverju, í dag var ég til að mynda prófstjóri í fjarveru aðstoðarskólameistara og leið eins og ég væri hæstráðandi skólans. Síðan hef ég samið próf af miklu kappi og jafnvel reynt að safna í sarpinn fyrir næsta vetur í leiðinni en þá verð ég alein og yfirgefin og lendi í öllu sjálf svo það veitir ekki af. Við fjölskyldan reynum að púsla vinnu og heimili eftir bestu getu, ég kem heim í hádeginu og lít á liðið og oftar en ekki er heimavinnandi húsfaðirinn búinn að baka en þegar ég kem heim seinni partinn þarf hann að æða í vinnu, svo samverustundirnar eru fáar þessa dagana. Hann sleppur vel við íþróttaskutlið, svoleiðis er allt búið og bara vika eftir í skólanum hjá Strumpunni. Við bíðum öll spennt eftir sumarfríi og Svíþjóðarferð, Strumpan ekki síst, því hún fékk að velja sér verðlaun eftir góðan vitnisburð í fiðlunni og valdi: candy floss og blöðru á 17. júní og sund og tívolí í Svíþjóð – þetta síðasta var bara samþykkt af því að það var búið að setja það inn á prógrammið. Nú er hún bara í því að stækka, því þegar við skoðuðum heimasíðu Tosselilla-garðsins komu í ljós nokkur tæki sem maður þarf að vera 130 sentimetrar til að mega fara í, svo nú er unnið hörðum höndum að því að stækka, í dag borðaði hún meðal annars banana, blómkál, papriku, gulrætur og jarðarber, allt í þessum góða tilgangi.Hún kom heim í síðustu viku alveg á því að fara að æfa fótbolta í sumar en foreldrarnir ætla eitthvað að standa á bremsunni með það. Ég ætla að reyna að halda fótboltabölinu frá mínu heimili eins og ég get. Frekar eru það mörg reiðnámskeið og kapplestur á Amtinu.

Skottan er þæg og góð heima hjá pabba, svona öllu jöfnu og ekki laust við að hún sofi ívið meira að jafnaði heldur en hjá múttu sinni. Hún var í 8 mánaða skoðun á miðvikudaginn og ætlar ekkert að fara að hífa sig upp í þyngdarkúrfunni, þvert á móti. Þó verður mér um og ó þegar hún borðar hátt í 300 grömm af graut í mál, verandi 7,2 kíló sjálf þá er þetta ansi hátt hlutfall af eigin þyngd. Enn er hún skeptísk á allt nýtt samt, ég reyndi að gefa henni brauð um helgina við litla lukku og sömuleiðis fúlsaði hún við jarðarberi en skipti reyndar aftur um skoðun á því. Svefninn er farinn að verða bærilegur aftur (passlega því loksins fékk ég á bókasafninu einhverja biblíu um svefn en þá er ekki þörf á henni lengur) og ýmsar kúnstir kann hún nýjar, er farin að klappa og myndast við að brölta upp á hné og hífa sig upp. Hún hefur náð góðu valdi á rúlli og rúllaði sér fram úr hjónarúminu um daginn þegar móðirin stóð við rúmgaflinn og var ansi svifasein. Ég finn fyrir því að nú er ég ekki lengur sú sem sé hlutina gerast og það er ansi súrt en gaman fyrir pápann að njóta þess. Dagarnir þjóta áfram, það styttist auðvitað í mitt sumarfrí og þá verður maður aftur með puttann á púlsinum.