Byrjunarörðugleikar

Í dag ætluðum við að gerast Danir og sækja um kennitölur en komumst að því að það er bara opið á skrifstofunni á fimmtudögum og föstudögum svo það þarf að bíða enn um sinn. Við eigum líka eftir að græja símamál (og sumir gleymdu líka hleðslutækinu sínu á Íslandi eins og áður hefur komið fram) en okkur tekst líklega að gera svolítinn höfuðverk úr því. Ákváðum að fara í búðarleiðangur í dag. Fórum í Føtex en gleymdum að taka klinkið okkar með og áttum því ekki pening til að taka kerru. Þurftum að finna hraðbanka og með aðstoð frú GPS tókst það. Hraðbankinn var hjá annarri stórverslun en við föttuðum ekki að fara í hana og keyrðum aftur í Føtex. Vorum lengi lengi lengi í búðinni. Vissum ekki hvort kortin okkar væru gild og keyptum því frekar lítið en þurftum mikið að spá og spekúlera. En nú er að minnsta kosti komið hvítvín og appelsínujógúrt í hús og þá er í raun það nauðsynlegasta komið. Mummi fann líka limpu, sér og Strumpu til mikillar gleði. Dætrunum hefur svo verið sinnt lítillega. Það eru margir smá leikvellir hér í kring, einn er með mikilli þrautabraut sem Sóley fékk að fara á. Sunnu nægir róla og sandur til að vera glöð. Við Sóley tókum líka smá bocciakeppni. Þetta finnst henni samt frekar lítil dagskrá. Hún hefur séð sirkusauglýsingar og vill gjarnan komast á hann en nefndin hefur ekki komist að niðurstöðu. Svo er beðið í ofvæni eftir Tivoli Friheden. Eins og hún spurði í dag – til hvers vorum við eiginlega að flytja? Annars er bara gripið í smá upppökkun, við sjáum að við höfum tekið allt of mikið með okkur því hér er allt til alls. Stelpurnar gleðjast yfir gjöfum náttúrunnar, hér eru jarðarberjaplöntur og rifsberjarunnar innan seilingar, auk kirsuberjatrjánna en berin mega bíða sér örlítið til batnaðar. Við fengum okkur síðdegiskaffið úti í garði en það gjólaði reyndar full mikið og í daga hafa skipst á skin og skúrir. Ekkert frábært veður framundan í kortunum en alveg viðunandi samt.

Join the Conversation

5 Comments

 1. Gaman að fylgjast með ykkur – vonandi eru símamál Dana betri en Þjóðverja, þar var bara hægt að fá símanúmer og internet til tveggja ára lágmark – og muna að segja upp með 3ja mánaða fyrirvara, annars framlegt til sama tíma 🙂 Alltaf stuð að koma sér fyrir. Knús á línuna.

 2. Mikið er nú gaman að fá að fylgjast með ykkur svona í díteilum:-) Mér sýnist það verða full vinna að hafa ykkur í útlöndum….skype, kommenta á statusina ykkar beggja á á facebook, chatta á facebook og svo bloggið….en ég er alls ekki að kvarta. Með hjálp tækninnar munum við hér í Heiðarlundinum lifa af árið án ykkar. Eina sem vantar og verður reddað á næstu dögum er vefmyndavélin góða.
  HAFDÍS INGA!!!!! Já nú ætla ég að skammast aðeins…þú hefðir VEL getað ræst út riddaraliðið öðru sinni….við hefðum með glöðu geði keyrt á Kópasker fyrir þig til að sækja þetta hleðslutæki þitt!! Þú manst það bara næst:-)
  Gangi ykkur sem allra best að verða Danir.
  Knús í hús frá okkur í Heiðó:-)

 3. Blogg nr. 2 frá DK og ég er alveg að farast því mig langar svo í heimsókn til ykkar. Við kannski skellum okkur bara til ykkar um verzló 😉
  Gaman að fylgjast með og gangi ykkur vel 🙂

 4. Garðurinn er pínulítill, þannig að ég er hræddur um að einu flugmódelin sem fljúga þar eru fest við hendurnar á manni og maður þarf sjálfur að segja burr. En hérna rétt hjá eru smátún, þar væri hægt að fljúga allraminnstu fómíunum. Jafnvel væri hægt að húvera (berist fram a la Wesse – er nokkur annar framburður valid?) stærri fómíum!

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *