Ný ævintýri

Á miðvikudaginn var haldið á vit ævintýranna á Himmelbjerget. Strumpunni var skipað að skima eftir fjallinu á leiðinni og hún var allan tímann að bíða, skildi ekkert í þessu þegar við lögðum á bílastæðinu og vorum uppi á fjalli. Þetta var reglulega indæl ferð. Ég kom þarna síðast fyrir 20 árum, þá í mars og allt miklu grárra en við vorum í yndislegu veðri og fegurðin alveg óskapleg. Það er frábært útsýni þarna af Alpabrúninni, vötn og skógar þarna í kring. Við Strumpan gerðum okkur meira að segja ferð alla leið upp turninn (svo ég tæki aðeins meiri minningarpakka á þetta) og inni í turninum voru 3 svöluhreiður.

Dömurnar voru síðan alsælar með leikaðstöðu sem þarna er, Sunnan getur auðvitað rólað allan daginn ef hún hefur nægilega þolinmóðan félagsskap. Komst reyndar að því að rennibrautir eru afskaplega skemmtileg uppfinning. Við höfðum með okkur nesti að hætti Dana, þurftum að vísu að flýja undan ágangi geitunga (sem ég hef annars engin samskipti átt við fram að þessu). Við eigum alveg örugglega eftir að teyma aðra gesti á þessar slóðir og vonandi förum við síðar í siglingu um Silkiborgarvötnin eins og mig dreymir um.

 fimmtudag var svo komið að Skagen. Við vorum búin að boða komu okkar til okkar gömlu vina, Kim og Bente og eins og þeirra er von og vísa var okkur boðið í hádegis- og kvöldmat. Þegar við komum um hádegisbilið (eftir að ná að hrista tengdapabba af okkur) beið okkar „stjerneskud“ sem er óhemju ljúffengt smørrebrød með rauðsprettu og rækjum. Eftir mat byrjuðum við á að fara á Grenen, næstum því nyrsta odda Danmerkur, þar sem Skagerak og Kattegat mætast og mynda röst eina tvo kílómetra út. Stubburnar voru báðar afskaplega kátar, sú stutta hegðaði sér ósköp líkt Strumpunni þegar hún kom fyrst hingað, fjögurra ára gömul, kepptist sem sagt við að krafsa og grafa í sandinum. Enda er hann æðislegur, svona bíómyndahreinn og hvítur 🙂 .

Eftir þetta fórum við í miðbæinn og röltum þar. Hann er afar sjarmerandi, með lágreistum, fallegum húsum og  haug af fólki. Hér búa bara um 8 – 9000 manns en ferðamannafjöldinn á sumrin er vel á annað hundrað þúsund. Úr bbænum fórum við svo á Skagen Museum til að skoða verk Skagen málarana. Þar höfum við komið áður og það verður ekkert síðra. Dásamleg sýning í gangi með verkum úr einkaeigu.

Við enduðum daginn svo í allsherjar grillmat hjá Kim og Bente og fórum að venju vel útkýld frá þeim (við erum vön því hvernig þau moka í mann mat en ég held að tengdó hafi nánast fengið áfall). Lentum reyndar í algjörri skítarigningu á leiðinni heim svo það var andstyggilegt að keyra á köflum.

Í gær var farið í pínulitla verslunarferð í Bruuns Galleri, aðallega verslað á Strumpuna sem náði að slíta næstum öllum buxum áður en við héldum út, svo það þarf að birgja hana vel upp.

Við áttum síðan von á að fá kennitölurnar okkar í hús í síðasta lagi á fimmtudag. Þær hafa ekki sést enn, en mér til mikillar gleði beið mín bréf í gær þar sem ég var boðuð í krabbameinsskoðun (þar sem kennitalan mín kom fram). Þetta er einkennileg forgangsröðun en gott að þeir vilja fylgjast svona vel með mér. Ég er að hugsa um að þiggja boðið og spara mér því næstu heimsókn til hans Orra.

Gestirnir okkar yfirgáfu svo kotið í bítið í morgun. Það er búið að vera ósköp ljúft að hafa gesti og dömurnar hafa svo sannarlega notið þess að hafa afa og ömmu. Amma syngur fyrir Skottuna og og afi skreppur með hana í göngutúra, bæði spila þau við Strumpuna. Það verða viðbrigði að hafa þau ekki lengur.