Skólastelpurnar

Stóri dagurinn okkar mæðgna var í gær. Þá var fyrsti dagur Strumpu í skólanum og fyrsti dagur kynningarvikunnar hjá mér. Þar sem taxa-skutlið er ekki komið í gagnið mættum við gallvaskar út á stoppistöð korter yfir sjö í gærmorgun. Lentum í vandræðum með að borga, ég ætlaði að kaupa klippikort af bílstjóranum en hann benti mér á sjálfsala í vagninum. Sjálfsalinn seldi reyndar bara staka miða og tók bara klink eða dönsk kort svo við slepptum því að borga í þetta sinn. Keyrðum í kjaftfullum strætó sem fer með okkur nánast alla leið, en tekur reyndar 40 mínútur í það. Êg skilaði Strumpu inn í skólastofu (með smá hjartsláttartruflanir) og gekk síðan upp í háskóla og fann eftir smá leit rétt hús.

Fyrst á dagskrá var smá útskýring á dagskránni, síðan tók við kynning á námsumhverfi skólans (þar á meðal þessu dásamlega einkunnakerfi -03 til 12). Að loknum hádegisverði fengum við smá tölu um danskt samfélag með augum útlendings, sem fjallaði aðallega um hygge og bjór. Að því loknu fengum við smá skoðunarferð um svæðið og enduðum í velkomstsamkomu (með bjór, en ekki hvað?) Dagurinn var ágætur en ég vandaði mig sem mest ég gat að blanda afskaplega litlu geði og forðaðist sérstaklega Íslendingana eins og heitan eldinn, enda ekki flutt til DK til að kynnast löndum mínum. Ég fann fyrir skrítinni blöndu þess að fíla mig gamla og þó ekki (skiljist sem svo að mér fannst ég í raun ekki standa út úr hópnum en horfði samt á öll þessi börn í kringum mig). Gamlinginn ég lét sig líka vanta í gleðskap kvöldsins á Stúdentabarnum 🙂 .

Leiðin lá síðan að sækja Strumpu í frístund og það var ósköp kát stelpa sem beið þar og vildi endilega bjóða nýju vinkonunni heim. Það er sennilega skrýtið að heimsóknir séu ekki eins frjálslegar og heima. Hún lét vel af skólanum, hafði eignast tvær vinkonur og gekk vel að skilja og fylgjast með. Í frístund hafði hún knúsað kanínur o ggeit auk þess að steikja pönnuköku yfir eldi og fleira. Okkur tókst þó að draga hana burt enda var búið að fylla bílinn af eplum og stefnan tekin á Marselisborgarskóg.

Litla stýrið sat í einhverfukasti aftur í og tautaði dádýr, dádýr – á misjafnlega örvæntingarfullu stigi, stundum var mikil sorg í gangi, enda tók þetta ferðalag að heiman óratíma. Þegar við nálguðumst skóginn kættist daman öll. Við náðum að koma út eplunum okkar og höfðum að auki brauðafganga með handa öndunum en það mátti hafa sig allan við að koma brauðinu þangað, ekki vegna samkeppni við máva heldur ágangi dádýra. Nokkuð ljóst að þessi matur var ekki síðri en forrétturinn.

Það voru þreyttar skólastelpur sem komu heim, pabbi gamli náði þó að herja út hjóltúr í búðina en eftir það var fátt um fína drætti. Litlu dömunum var skellt snemma í bæl en Skottan var alls ekki á svefnbuxunum og hélt vöku fyrir þeirri stóru frameftir. Undirrituð fór með bók í rúmið upp úr níu og las í skamma stund og sofnaði svo.

Î dag var komið að skólastráknum, þannig að þegar ég var búin að koma litlu skólastúlkunni á sinn stað (höfðum náð að kaupa strætókort á strætómiðstöðinni, blessunarlega, því eftirlitsgaurinn mætti á svæðið) þá kom ég mér aftur miðsvæðis og tók við Skottu á meðan skólastrákurinn fór í matspróf til að kanna dönskukunnáttuna. Við mæðgur röltum um bæinn á meðan og náðum meira að segja að versla smá :). Við vissum ekkert hvað okkar maður átti að vera lengi, bara að það tæki allt frá hálftíma upp í þrjá tíma, því betri sem hann væri, því lengur væri hann. Það var ágætt að við höfðum eitthvað að dunda við því hann var tímana tvo í prófinu. Búið að flokka hann í dönskuhólf og styttist í að hann geti sest á skólabekk.

Ég missti af tveimur fyrirlestrum á meðan þessu stóð, hraðnámskeiði í dönsku og kynningu á ýmsu félagsstarfi í háskólanum og borginni. Eftir hádegi var skoðunarferð um borgina, þá gengum við í litlum hópum niður í miðbæ og skoðuðum það helsta. Ég var reyndar búin að sjá flest af því en veit þó nú á hvaða kaffihús ég fer til að næla mér í danskan mat og það er vel.

Ég fór í strætó og sótti Sóleyju í frístund. Hún var býsna sátt með daginn en hann var samt ekki eins frábær og í gær, eitthvað höfðu nýju vinkonurnar enst stutt og strákarnir í bekknum eru algjör fífl. En það er auðvitað ekkert nýtt undir sólinni. Við höfum verið í letikasti síðan við komum heim. Ég er í fráhvarfi af því að áskriftinni að Politiken er greinilega lokið. Ætla að sjá til hvort ég jafni mig áður en ég splæsi í áskrift. Það er aukinheldur svo tímafrekt að lesa blaðið að ég efast um að svoleiðis gæðastundir verði á lausu þegar skólinn hefst.

Á morgun slepp ég billega við dagskrá, fer í kynningu á bókasafnið í einn og hálfan tíma en þarf ekki að gera meir fyrst ég er komin með kennitölu. Sem er ágætt þvi Skottan á að líta í heimsókn til væntanlegrar dagmömmu. Hún er hér skammt undan og ef allt gengur að óskum byrjar daman þar um mánaðarmót. Ég vona að allt gangi að óskum því ég er búin að senda svarbréf um að við þiggjum plássið (við fengum tilboð í pósti á laugardaginno g áttum að senda svarbréfið svo það yrði komið í þeirra hendur á fimmtudegi, annars væri litið sem svo á að við vildum ekki plássið). Dagurinn verður því enn og aftur mikilvægur, nú er allt að gerast.