Það leið óvart langur tími á milli blogga hjá mér núna og skrifast það einkum á gestakomu um síðustu helgi. Meira um það síðar. Ef við höldum áfram þaðan sem frá var horfið þá fórum við í heimsókn til dagmömmunnar á miðvikudaginn í síðustu viku. Hún reyndist sem betur fer vera geðug og ekki var annað séð en að Skottunni litist bærilega á sig líka. Það var reyndar rólegt því tvö börn voru fjarverandi og eitt svaf megnið af tímanum. Þau verða sem sagt bara fjögur og eru á nokkuð svipuðum aldri.
Marianne sló í gegn á fyrstu mínútunum hjá Skottu af því að hún átti Bamse og Kylling, hún lék sér með þá og annað fínt dót til að byrja með. Svo fengum við hressingu og þá var matargatið líka sátt því í tilefni heimsóknarinnar var boðið upp á kex og saftevand. Síðan vaknaði Lærke og leist framan af illa á aðkomumennina en Skottan var sátt við að sjá loks annað kríli. Við skoðuðum líka garðinn og þar var þetta fína hús og róla sem hægt er að liggja í auk alls konar bíla og hjóla og alt muligt. Það var því þrautin þyngri að koma dömunni heim aftur. Það er annars stutt að fara, hún býr í um það bil fimm mínútna göngufjarlægð ef maður tekur stystu leið.
Dagmömmusystemið er svolítið öðru vísi en það sem maður á að venjast og að mörgu leyti afskaplega danskt. Þannig þurfti ég að láta yfirmann dagvistunar vita að ég vildi plássið og við hittumst síðan þrjár til að fara yfir þetta praktíska. Lykilorðið virðist vera umræða. Þannig á maður ekki að hika við að láta vita ef eitthvað er öðru vísi en maður er vanur eða ef maður er ósáttur. Síðan virkar kerfið sem svo að ef dagmamman er veik þá er alltaf hægt að koma barninu að hjá annarri dagmömmu, svo hér eiga veikindadagar ekki að bitna á foreldrum og ég efast um að til sé eitthvað sem heitir starfsdagur. Dagmömmurnar eru alltaf í litlum dagmömmuhóp sem hittist einu sinni til tvisvar í viku með krílahópinn svo ef maður þarf afleysingu þá á það að vera einhver sem krílið þekkir.
Skottan byrjar svo á mánudag, hefði í raun átt að byrja í gær en dagmamman var í fríi í dag svo okkur fannst það ástæðulaust. Sömuleiðis er dagmamman í fríi eftir tvær vikur og ef Skottan hefði verið komin vel af stað þá hefði hún þá farið til afleysingarmömmunnar en við ákváðum að redda þessu frekar sjálf af því að hún verður svo nýbyrjuð. Við ræðum þetta reglulega og Skottan tekur vel í að hún sé að fara til dagmömmu enda þaulvön!
Skólastelpurnar tvær standa sig enn með prýði. Sú eldri fór meira að segja að blanda geði á fimmtudag þegar hún loks var komin í hóp með verðandi samnemendum sínum en skrópaði þó í strandpartý á föstudag. Í gær hittist svo allur hópurinn loks. Þetta eru ríflega þrjátíu manns, einhverjir eru reyndar erasmus nemar og verða bara hálft ár. Ég er auðvitað tvöfalt eldri en flestir en kættist þegar ég heyrði að það var önnur mamma í hópnum, svona þarf nú lítið til. Það er strax búið að setja fyrir lestur og við erum ekki einu sinni búin að mæta í alvöru tíma, bara enn eina kynninguna. Svo nú er bara að skella sér í djúpu laugina og athuga hvort aðferðin að lesa jafn óðum er í alvöru til og hvort hún virki. En fyrst er reyndar að kaupa bækurnar, ég á það reyndar eftir 😉 .
Sú unga ber sig líka ágætlega. Hún er loks farin að fara með leigubíl á morgnana og þó það muni ekki öllu í fótaferðatíma þá er ósköp gott að vera laus við strætó. Hún fór með bekknum á listasafnið (og skoðaði Regnboga Ólafs Elíassonar) og í tónlistarhúsið í fyrradag og það var mikið stuð. Og frístund er enn mjög skemmtileg þótt hún hafi kvartað yfir að það væri næstum ekkert hægt að gera skemmtilegt fyrir utan (og svo kom langur listi)… og endaði á að segja að það væri bannað að leika sér í símanum (sem hún fékk loks nú í síðustu viku eftir átta ára bið).
Hún gleymdist reyndar í skólanum á föstudaginn, þá kom kennari til að fylgja þeim í frístundina og Strumpan hafði af einhverjum ástæðum brugðið sér frá og krakkarnir voru vissir um að hún hefði ekki verið í skólanum. Hún reddaði sér bara sjálf og fór á skrifstofuna og lét vita og það kom svo starfsmaður og fylgdi henni. Hún var fullviss um að hún hefði heillað hann upp úr skónum enda sýndi hún alla sína helstu hæfileika, meðal annars að prumpa með handarkrikanum. Ég efast ekki um að hann hafi verið uppnuminn.
Á laugardag fengum við svo gestina okkar, fyrst Árnýju seinni part og Önnu og Martin um kvöld. Við vorum kaffærð í gjöfum, ekki nóg með að Árný kæmi með umbeðið hangikjöt (ekki er ráð nema í tíma sé tekið) heldur var hún einnig með nammi og gjafir handa stelpunum og sömuleiðis Anna og Martin komu færandi hendi, meðal annars með sænskt viský sem reyndist svona ljómandi gott. Við mæðgur fórum með Önnu og Martin í Legoland (langþráða ferð) á sunnudaginn, þeirri eldri fannst víst ekki farið nógu mikið og oft í tæki en miðarnir okkar gilda síðar svo það verður líklega farið aftur. Á mánudaginn fórum við fyrst í smá búðarleiðangur í miðbæinn og svo sóttum við Strumpuna snemma í frístund og fórum með gestina í Marselisborgarskóg með rummungsskammt af eplum.
Á mánudagskvöld var síðan komið að hápunkti sumarsins, tónleikunum með George Michael. Við frænkur lögðum af stað til Herning um sex og vorum mættar fyrir utan Jyske Bank Boksen um hálf átta í grenjandi rigningu og náðum að blotna vel á leiðinni frá bílastæði inn í hús. Árný sat nokkrum bekkjum aftar en við og lenti í ólátum, þar sem einhverjum var vísað út en við systur sátum í rólegri félagsskap. Félaginn byrjaði svo að syngja um hálf níu og stóðst allar væntingar og þá er ekki lítið sagt. Ég var aðeins búin að hita upp á youtube en það er ekkert sem jafnast á við að hafa hann svona í þrívídd fyrir framan sig. Það var rífandi stemming í salnum og var til dæmis risið úr sætum tvisvar og klappað. Eftir hlé náði Árný að setjast á næsta bekk fyrir aftan okkur svo við höfðum hana skammt undan. Félaginn var svo klappaður upp í tvígang með þvílíkum látum. Við keyrðum alsælar heim, það var auðvitað örtröð að komast burt og minnti helst á Metallicu hér um árið en allt hófst að lokum, það var þó látlaus rigning nánast alla leið heim svo við vorum komnar í hús um eitt.
Árný fór síðan heim á miðvikudag, var keyrð í lest um morguninn og við hin fórum á rölt í bæinn og fengum okkur hádegisverð á Rådhuskafeen í tilefni dagsins. Ég yfirgaf svo gestina um kvöldið til að fara á LC fund með nýja danska klúbbnum mínum. Það var voða gaman en erfitt fyrir eyrun að hlusta á flóðgátt af dönsku svo þetta verður bara hollt og gott fyrir mig. Við byrjuðum kvöldið á súmóglímu, fórum í fitubollubúninga og glímdum tvær. Mér var fleygt strax í gólfið en komst svo að því að andstæðingur minn (sem vann keppnina) hafði æft glímu. Fundurinn var að mörgu leyti keimlíkur þeim heima, nema hvað það er farið yfir fréttir frá öðrum klúbbum (ekki alveg öllum samt, þeir eru hátt í 200).
Í gærmorgun yfirgáfu Anna og Martin okkur svo það er hálf tómlegt í kotinu. Engin plön fyrir helgina (nema að skrópa í enn einu partýinu í skólanum). Ég byrja í tímum á þriðjudaginn og þarf að fara að huga að ferðamáta, það er varla að það sé fljótlegra að fara í strætó en að hjóla þegar allt er tekið með svo kannski er það bara málið.
Læt gott heita að sinni.