Þá er Skottan komin langleiðina með fyrstu vikuna hjá dagmömmu og ég búin með tímana mína þessa vikuna í háskólanum. Við erum báðar í þokkalegu standi eftir þetta allt. Kannski fyrst frá því að segja að það gengur eins og í sögu hjá dagmömmu. Á mánudaginn vorum við með henni í næstum þrjá tíma, fórum á æðislegan leikvöll sem er nánast niðri á strönd og er mjög náttúrulegur og skemmtilegur. Við héldum hæfilegri fjarlægð allan tímann og það var mest lítið sem hún þurfti að leita til okkar. Hún fékk síðan að borða og fór heim að sofa. Á þriðjudag fór pabbinn með hana og skildi fljótt við hana og hún kippti sér ekkert upp við það og var alein fram að hádegi. Gærdagurinn og dagurinn í dag hafa verið eins, hún er bara hæstánægð að komast á morgnana og er alveg róleg þegar hún er sótt, liggur ekkert á að komast. Í dag fór hópurinn í leikfimissal og þar lék hún sér með bolta sæl og glöð. Á morgun á hún að prófa að sofa og við búumst ekki við öðru en að það gangi áfallalaust.
Hin aðlögunin hefur líka gengið prýðilega en ekki alveg eins áfallalaust. Á mánudaginn fór ég og keypti bækur, enda var heimavinna að lesa einar 100 síður fyrir tímann á þriðjudag. Ég þrælaðist í gegnum efnið án þess að fletta upp í orðabók og fannst þetta nokkuð strembið. Í tímanum á þriðjudaginn var mjög gaman og mér leist vel á kennarann og efnið en boy hvað hinir virtust meira með á nótunum og betri en ég í ensku. Ég hefði eflaust farið að gráta ef ég hefði þó ekki verið búin að lesa heima svo ég vissi aðeins hvað fram fór. Það beið svo heimavinna fyrir miðvikudagstímann og ég byrjaði á því að lesa í skólanum, enn án orðabókar og það var ansi erfitt, ég var að lesa um ESB og veit náttúrulega ekki rass. Ákvað að lesa heima um kvöldið og nota orðabók til aðstoðar. Ég gerði það svo og var ansi sátt við hvað ég skildi bara þokkalega. Þetta var þó til þess eins að komast að því að sá kafli hafði ekki verið fyrir tímann svo ég var ekki alveg eins með allt á hreinu eins og ég ætlaði. Ferlega súrt. Kúrsinn lofar samt mjög góðu, ekki síst vegna þess að ég hafði minnstar væntingar um hann fyrirfram.
Fyrir tímann í dag var svo blessunarlega (jamm, komin í stúdentagírinn) engin heimavinna svo ég tók því nokkuð rólega í gær og horfði meira að segja á sjónvarpið. Hann var alveg dæmigerður fyrsti tími, farið yfir áfangann, skipulag og námsmat, mjög ítarlega meira að segja og ég þurfti alveg að hafa mig alla við að fylgjast með. Ég fór síðan með samnemendum mínum á stúdentabarinn svona til að vera ekki alveg antisósjal, það er betri tími að fá sér bjór seinni partinn en á kvöldin 🙂 .
Í heildina líst mér vel á mig. Ég held að það sem sagt var við okkur í síðustu viku um að þetta væri erfitt en gaman muni alveg eiga vel við. Kennararnir þrír lofa mjög góðu hver á sinn hátt. Það er gaman að rýna í þá með eigin kennaragleraugum og spá í hvernig þeir standa sig. Og nemendurnir hafa enn sem komið er ekki svekkt mig með því að vera í tölvunni að gera annað.
Strumpan kom svo alsæl heim í dag. Það hafði nefnilega bæst nýr nemandi í bekkinn og að þessu sinni datt mín í lukkupottinn, það var nefnilega Íslendingur 🙂 . Með öðrum orðum þá lét daman dæluna ganga svo öðrum fannst nóg um. Ég er ósköp fegin þessu af því að mér hefur fundist hún vera frekar einangruð og ekki mikið eiga samskipti við hina. Hún er mest út af fyrir sig í frístund og hefur ekki tengst neinum í bekknum. Til að bæta daginn enn frekar þá var boðið upp á popp í frístundinni og fröken vissi varla á hvaða tíðindum hún átti að byrja þegar hún kom, það var svo margt að segja eftir daginn.
Í lokin smá veðurfréttir. Það hefur verið ansi blautt hérna nokkuð lengi og enn hefur ekki liðið sá dagur að það væri ekki rigning einmitt þegar ég er að koma úr skólanum. Hjólið stendur því frekar lítið notað, ég hef hreinlega ekki nennt að hjóla í rigningunni. Það hefur svo verið um 15° hiti, en stefnir í gott veður um helgina. Við höfum hjólað mest í búðina samt, bíllinn fékk að standa óhreyfður í heila viku sem hefði aldrei gerst heima. Minn elskulegi eiginmaður rifjaði upp gamla hjólaviðgerðartakta á sunnudaginn og tók bæði hjólið mitt og Strumpunnar í gegn, gírarnir voru vanstilltir hjá mér og svo lak úr dekkjum hjá okkur báðum og þetta lagaði hann eins og hann hefði ekki gert annað. Hann er alltaf að sýna á sér nýjar hliðar þessi elska.