Ekki það að ég hafi ætlað að láta líða svona langt á milli blogga, þetta er bara merki um hvað tíminn líður hratt. Mér finnst ótrúlegt að það séu liðnir tveir mánuðir frá því að við komum. Ef við verðum bara árið er liðinn 1/6 af tímanum!
Svo farið sé yfir það helsta frá því síðast þá vorum við býsna virk um síðustu (eða reyndar þarsíðustu) helgi. Það var yndislegt veður, svo á laugardeginum ákváðum við að fara í lautartúr. Hjóluðum í Riis Skov, með viðkomu í bakaríinu og reyndar smá lengingu á túrnum til að kortleggja leiðina mína í skólann aðeins betur. Þetta er geysiskemmtileg leið, bæði eru falleg hús við götuna sem við hjólum en einnig liggur hluti leiðarinnar meðfram sjónum. Skógarferðin sjálf var hálf mislukkuð, við lögðum reiðskjótunum okkar og gengum inn í skóg og ætluðum að finna huggulegt rjóður en það lét alveg á sér standa. Við enduðum á að sitja á bekk og snæða nestið og fylgjast með mannlífinu. Þaðan gengum við niður á ströndina sem er þarna við. Þar er á sumrin skipulögð gæsla og væntanlega líf og fjör en frekar fámennt þegar við fórum, Strumpan þó ekki nógu ánægð með að fá ekki að sulla aðeins í sjónum og reyndar gaf Skottan það sama í skyn. Við hjóluðum síðan heim með viðkomu í búðinni. Þetta voru einir 12 km og ég var mest hissa hvað Strumpan bar sig vel.
Á sunnudeginum var ákveðið að fara í Legoland, í boði Önnu og Martins, því við áttum frímiða sem við erfðum eftir þeirra ferð þangað. Báðum dömunum var sinnt ágætlega, Skottan fékk að fara í mörg tæki og var himinsæl og þegar var búið að sinna henni var komið að Strumpunni og hún fór líka í allmörg tæki. Mér finnst þó að tækin séu frekar lítið spennandi, en þetta dugar auðvitað vel fyrir minnsta aldurshópinn. Það var ágætt veður á okkur þarna og rigndi til að mynda ekkert.
Síðan var komið að skólaviku/dagmömmufrísviku. Ég gerði því ekkert nema að fara í skólann og rembast við að lesa þegar Skottan svaf á daginn og á kvöldin. Sem betur fer var frí í einum áfanganum sem hentaði afskaplega vel á þessum tíma. Ég var aðeins meira með á nótunum í fyrri tíma vikunnar en ég hafði verið vikuna áður en seinni tíma vikunnar upplifði ég loksins að skilja allan tímann. Það var að vísu þungur tími að því leyti að það var fyrirlestur allan tímann (í þrjá tíma með einni hálftíma pásu). Efnið er samt spennandi, þá vorum við að tala um þjóðir, mest út frá mannfræðikenningum. Kannski ég hefði átt að fara í mannfræði? 😉 Mér varð oft hugsað til Domenicu i 44 Scotland Street, sem fór til að rannsaka mannætur – en lærdómur dagsins var samt sá að það væri ekki lengur aðalatriðið að gera rannsóknir með því að dvelja meðal þeirra sem maður rannsakar. Sömuleiðis minnti þetta mig líka á þær „Xenophobics“ bækur sem ég hef lesið sem mér finnst mikil skemmtun.
Það taldist svo til tíðinda að ég hjólaði í skólann á fimmtudeginum. Leiðin er þægileg framan af, en endar í óskaplegri brekku upp að háskólanum. Ég var tæplega 40 mínútur að hjóla í skólann og gerði þau mistök að vera ekki með heilt skiptidress og sat því í svitastorknum bol og vorkenndi þeim sem sátu næst mér. Næst verður heilgalli til skiptanna með í töskunni. Ég var töluvert fljótari að hjóla heim og sá túr var bara notalegur. Þó var það athyglisvert að það var mótvindur báðar leiðir og sama í hvaða átt ég hjólaði! Eflaust vegna þess að ég hjólaði svo hratt.
Á föstudaginn leit dagmamma Skottunnar inn, svona til að rifja aðeins upp fyrir henni. Strumpan hafði fengið leyfi til að fara heim með nýju bestu vinkonunni, svo hún missti af þessu. Nýja vinkonan býr í hinum enda bæjarins og við vorum ríflega 20 mínútur að keyra þangað þegar við sóttum hana um kvöldið. Hún hafði reyndar sótt það að fá að gista en ég ákvað að ég vildi að minnsta kosti sjá einu sinni framan í foreldrana áður en hún fengi leyfi til þess.
Helgin fór annars fyrir lítið. Skottan orðin verri af kvefi, að öllum líkindum líka með eyrnabólgu, næturnar voru ófriðlegar. Við héldum okkur því heima við. Hún er líka heima í dag (týpískt að eyða dagmömmufrísvikunni í að vera hraust og veikjast svo um leið og hún á að mæta aftur). Litla daman er orðin sjónvarpssjúk í veikindunum, allt er látið eftir henni og nú horfir hún á sjónvarp sem aldrei fyrr og nær líklegast að vinna upp tapaðan tíma síðustu tveggja ára. Það eru „Abbeogylle“ sem eru svona vinsælir og kaupa foreldrunum smá frið.
Afmælisdrengurinn er í skólanum, loksins byrjaður að læra dönsku. Strumpan fór með pönnukökur handa bekknum í tilefni dagsins og í kvöld er ferðinni heitið á Jensens bøfhus til að fagna afmælinu en afmælisbarnið ætti að vera laust á skype í allt kvöld.