Við yfirgáfum Svíþjóð á föstudaginn var, lögðum af stað frá Önnu og Martin klukkan 10. Stoppuðum um eitt leytið í litlum bæ (sem heitir Hova eða eitthvað þess háttar og er einkum þekktur fyrir riddarahátíð í júlí) og borðuðum í bakaríi staðarins. Síðan var bara keyrt áfram, ætluðum alltaf að stoppa á Max til að fá okkur hinsta sænska borgarann en þegar við komum til Gautaborgar var ægileg föstudagsumferð þar svo við nenntum ekki að stoppa þar og síðan kom í ljós að það var ekki neinn Max í nágrenni við Varberg. Við lentum í smá töfum á hraðbrautinni út af árekstri en það var aldrei neitt stress af því að við vorum svo tímanlega.Í Varberg borðuðum við á týpískri pizzeriu/kebab stað og fórum svo í risastóra Ica í leit að Prinsesstårta. Skottan geystist um alla búð, dauðfegin að vera laus úr bílnum svo við eyddum dágóðri stund þarna, fundum okkar prinsessutertu og keyptum líka smávegis súkkulaði (þó ekki Nissa með lakkrís sem við fundum þarna okkur til mikillar gleði). Eftir þessa fínu búðarferð keyrðum við að ferjunni og komumst mjög fljótlega inn. Dömurnar voru alsælar á ferjunni, þar var þetta fína leikherbergi, sem Skottan sérstaklega tók ástfóstri við og þurfti nánast ekki að hugsa meir um hana. Strumpan varð aftur á móti aðeins sjóveik eftir tveggja tíma siglingu, enda var ansi hvasst og skipið svolítið órólegt eftir því. Hún fór nokkrar ferðir út til að hressa sig við og þar var varla stætt fyrir litlar dömur. En það dugði, við komum svo í land upp úr miðnætti, þá hafði Skottan ekkert sofið allan daginn, enda var hún snögg að sofna í bílnum á leiðinni heim. Þessari ferð lauk um hálf tvö, eftir ca. 15 og hálfan tíma á ferðalagi. En vel þess virði, við vorum öll í skýjunum með vel heppnaða ferð.
Strumpan var ósköp glöð að komast í skólann, var eins og unglingur að lýsa bekkjarfélögunum eftir fyrsta daginn, því það höfðu þrír farið í klippingu !!! og það þurfti miklar upphrópanir og stunur að segja frá því. Hún fór svo heim með Arndísi vinkonu sinni í dag og fær að gista og það er mikil gleði. Skottan var nokkuð sátt líka að komast í félagsskapinn en vikan hefur þó verið óvenjuleg að því leyti að hún fór í dag og á miðvikudaginn til afleysingadagmömmu. Loks fengum við sem sagt að reyna þetta danska kerfi, sem skaffar afleysingu ef dagmamman er veik eða í fríi. Það var óróleg mamma sem fór með dömuna sína á miðvikudagsmorgunn. Afleysingin reyndar enn nær en sú fasta, sennilega ekki nema svona 300 metrar til hennar, eða svo. Skottan hafði séð hana og börnin hennar áður (kerfið virkar sem sagt þannig að það eru nokkrar dagmömmur sem mynda hóp og hittast einu sinni til tvisvar í viku, í leikfimi og leikstofu) svo það var ekki alveg verið að kasta henni í hendurnar á ókunnugum en samt því sem næst. Hún var líka pínu efins og vildi ekki að ég færi en við vorum ákveðin í að láta á þetta reyna. Enda kom í ljós þegar ég sótti hana seinni partinn að þetta hafði gengið ljómandi vel, sömuleiðis í dag, svo ég er ögn rólegri með þetta. Og vissulega eru þægindi í því fólgin að þurfa ekki að redda sér, þó við séum auðvitað ekki rígbundin, ég meira að lesa og Mummi á sjálfstýringu í sínum verkefnum.
Skólinn var líka ágætur í vikunni (sem hann er reyndar yfirleitt), að þessu sinni voru við með sameiginlegan tíma fyrir alla áfangana á þriðjudaginn. Okkur var skipt í hópa og áttum að lesa efni heima sem við unnum svo áfram með í tímanum. Ég var í hóp sem fjallaði um Breska þjóðarflokkinn, sem ég vissi lítið um áður og hafði litlar væntingar um að væri spennandi en síðan reyndist þetta mjög áhugavert og með skemmtilegri hópverkefnum sem ég hef tekið þátt í. Hinir hóparnir fjölluðu um „trafficing“ sem ég veit ekki hvað heitir á íslensku, þetta er ekki alveg það sama eins og að smygla fólki, af því að það er sjálfvalið, og um Róma þjóðflokkinn. Það eru oft mjög áhugaverð efni til umfjöllunar hjá okkur og þá er gaman að vera til. Það er líka gott að finna hvað kennslan hefur þó gefið manni af reynslu að koma fram, mér finnst þetta frekar lítið mál þótt það þvælist aðeins fyrir mér að tala á ensku ef ég er ekki alveg með undirbúið hvað ég á að segja. Sumir nemendur eru hins vegar mjög óöruggir, meira að segja þeir sem tala frábæra ensku og eru jafnvel öflugir í litlum hópum. Það var líka skemmtileg tilbreyting að nemendurnir komu með þjóðarrétti með sér. Ég kom með skyr og rjóma (þó að danska skyrið sé platskyr með jógúrtgerlum en ekki skyrgerlum) og það vakti ágæta lukku en þótti frekar skrýtið að hella rjóma með 🙂 . Og ekki kunni ég neina skýringu hverju það sætti. Ég smakkaði eitt og annað nýstárlegt en vissi sjaldnast hvað ég var að borða eða hvaðan það kom, nema síldin og pølser i svøb 🙂 .
Strumpan fór til tannlæknis í gær og nú er gott að vera í Baunalandi og fá tannlæknaþjónustu ókeypis. Henni bauðst að fara í skorufyllingu með 6 ára jaxlana og það þáðum við með þökkum svo hún fer aftur fljótlega, verst að hún skuli ekki geta fengið spangir strax og ljúka því af….
Við erum svo að spá í að fara á næsta stig í dansk-aðlögun og keyra til Þýskalands á morgun og kaupa haug af víni, bjór og gosi, jafnvel smá súkkulaði líka. Þó okkur blöskri nú ekki verðin á þessu dagsdaglega (nema kannski gosinu) þá er ansans mikill munur á verði hér og í Þýskalandi. Og fyrir ykkur sem eruð að spá í að koma í heimsókn, þá hlýtur þetta að vera lokkandi … nóg af alkohol og gosi á bænum!