Helgardagskrá

Þá er helgin að verða liðin án þess að við höfum nokkuð farið til útlanda. Ákváðum að leika túrista í Árósum í staðinn og fórum með strætó í gær niður í miðbæ, til að sleppa við að borga formúu í bílastæðagjöld og til að gleðja Skottuna. Það stóð heima, hún var alsæl í strætó nema hvað það var mjög óforskammað af foreldrunum að leyfa henni ekki að fara um allt eins og hún vildi. Við röltum síðan um í bænum, fórum hinar og þessar götur sem við höfum ekki farið áður og sérstaklega fannst okkur göturnar í elsta hlutanum vera sjarmerandi. Gömul hús og þröng húsasund, það er eitthvað svo sjarmerandi. Fórum á kaffihús og fengum okkur tertur og héldum svo áfram göngunni. Slysuðumst inn í tvær verslanir í leit að íslensku nammi (sem ég var þó búin að finna í Irmu á föstudaginn), fórum annars vegar í Magasin og þar var auðvitað skemmtilegt að vera en hefði getað verið skemmtilegra kerru- og barnlaus … Fengum svolítið nammi þar, litum síðan líka inn í Tiger og þar sáum við ekkert nema Ópal og keyptum það ekki. Endaði svo á því að kaupa brenndar möndlur og ég og Skottan gúffuðum þeim í okkur á methraða.

Í dag ákáðum við að halda í smá pílagrímsferð og fórum á tveimur fljótari (s.s hjólandi) að skoða gamlar slóðir Jónasar (jarðfræðikennara, ekki nafna hans Hallgrímssonar). Sáum hvar hann bjó hér um árið og hjóluðum svo meðfram ánni, áttum eftir að fara svolítinn stíg þar og það var ekki galið, húsin þar ýmist svaðalegar villur eða smá húskofar (sem tilheyra sennilega upprunalegum íbúum). Þaðan fórum við í búðina og þegar upp var staðið var þetta rúntur upp á tæpa 8 kílómetra, ágætlega af sér vikið enda höfum við verið í lata gírnum undanfarið og ekki hjólað mikið. Skottan er líka alsæl með þennan ferðamáta og mátti varla vera að því að fara úr kerrunni til að gefa öndunum á Egánni brauð. Svo dagskráin í dag hefur verið með allra besta móti fyrir hana – og versnaði ekki þegar verslunarferðin var búin og í farteskinu eitt stykki terta 🙂 Í kvöld á svo að láta reyna á útlenska lambakjötið, keyptum innanlæri af nýsjálensku, verður fróðlegt að prófa það. Við gripum reyndar tvær sneiðar af kálfakjöti svona til að hafa á kantinum til vara…

Þær systur voru mældar í morgun. Strumpan orðin 137 sentimetrar og 30,7 kíló, Skottan aftur á móti um 86 sentimetrar og 11,3 kíló. Ég man ekki sambærilegar tölur fyrir Strumpuna en rámar í að hún hafi verið lægri, byggt á þeirri kenningu að þegar maður er tveggja ára hafi maður náð helmingi af endanlegri hæð (ok, kenningin er væntanlega rugl, amk eru strákar venjulega ekki hærri en stelpur á þessum aldri, kannski gildir þetta bara um stelpur 🙂 en sem sagt finnst mér eins og tala Strumpunnar hafi bent til þess að hún yrði um 165 sentimetrar. Ég sagði henni að það væri hefð fyrir því að eldri systur væru lægri en yngri systur. Það gildir alla vega í eina tilfellinu sem skiptir máli, þ.e.a.s. hjá mér og Önnu 🙂

Svo fór ég í krabbameinsskoðun á föstudaginn, um að gera að nota tækifærið þegar maður fær það fríkeypis. Það var ekkert klefadæmi að fara í slopp hér, bara vesgú og klæddu þig úr á meðan ég set upp hanska. Ég tók þessu með stóískri ró enda alvön og hafði  líka í huga að þetta væri að minnsta kosti ekki Orri, bara einhver Søren sem ég myndi ekki þekkja aftur þó ég sæi hann úti í búð.